„Þetta er virkilega svekkjandi. Við vorum með yfirburði stóran part leiksins en það er erfitt að vinna fótboltaleiki þegar þú færð fimm mörk á þig,“ sagði Sverrir Ingi Ingason leikmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta eftir 5:3-tap gegn Úkraínu á heimavelli í undankeppni HM.
„Þetta er virkilega svekkjandi niðurstaða miðað við hvernig leikurinn var í dag og bara ótrúlegt að við sitjum eftir í þessari stöðu að tapa 5:3 miðað við hvernig leikurinn var.
Þetta voru ódýr mörk, mikið af þeim. Mikið af þeim „transitional” mörk þar sem við erum að tapa boltanum á hættulegum stöðum sem er klárlega eitthvað sem við þurfum að bæta og kíkja á en það er partur af því hvernig við viljum spila fótbolta.
Við erum að sækja á mörgum mönnum og auðvitað gefur það liðum tækifæri á skyndisóknum en það sem situr mest í manni er að vera kominn til baka í leikinn í stöðuna 3:3 og ná ekki að sjá leikinn út og í versta falli gera jafntefli. Þó að þú vinnir ekki því við erum að keppast við Úkraínu um annað sætið í riðlinum og það munar miklu þegar annað liðið tekur þrjú og hitt núll," sagði Sverrir í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
„Kannski var þetta reynsluleysi, kannski vantaði ákveðna yfirvegun og ró í liðið á þeim augnablikum en okkur leið á vellinum eins og að augnablikið væri með okkur og að við myndum skora fjórða markið og vinna leikinn, en þetta var bara virkilega svekkjandi.“
Ísland mætir Frakklandi á mánudaginn næstkomandi og það er nóg af hlutum sem íslenska liðið þarf að fara yfir.
„Við þurfum að fara yfir hvað gerist, sérstaklega í mörkunum sem við fáum á okkur. Auðvitað verða leikmennirnir mögulega öðruvísi á móti Frökkunum en í dag.
Þetta var kannski einbeitingarleysi eða reynsluleysi og svo verðum við að fá yfirvegun á réttum augnablikum í leiknum og hugsa „ókei núna er kannski móment sem við þurfum að verjast djúpt á vellinum og kannski þjást aðeins“ en í því augnabliki, þangað til við komumst aftur inn í leikinn, en eiginlega í hvert sinn sem það gerist þá fáum við bara mark á okkur og það er það sem er mest svekkjandi.“
Ísland er núna í þriðja sæti í riðlinum.
„Auðvitað setjum við okkur í þessa stöðu og við þurfum a.m.k. að sækja sex stig í viðbót úr næstu þremur leikjum til þess að eiga séns.
Það er virkilega erfiður leikur á mánudaginn en við þurfum að tjasla okkur saman og gera það sem við getum til þess að reyna að ná í úrslit á mánudaginn
Við skuldum okkur sjálfum það að fá eitthvað meira úr leiknum á mánudaginn en í dag.“