Arnar við blaðamann: „Þú varst ungur einhvern tímann“

Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson. mbl.is/Eyþór Árnason

„Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á,“ sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson eftir leik Íslands og Úkraínu í D-riðli undankeppni HM á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í gær.

Leiknum lauk með sigri Úkraínu, 5:3, en íslenska liðið fékk á sig tvö mörk með tveggja mínútna millibili í fyrri hálfleik og sagan endurtók sig í síðari hálfleik þar sem Úkraína komst yfir, 4:3, á 85. mínútu og bætti svo við fimmta markinu þremur mínútum síðar.

Arnar var spurður að því á fundinum eftir leik hvort hann sæi eftir því að hafa ekki valið leikmenn á borð við Gylfa Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson í landsliðshópinn þar sem þeirra reynsla hefði mögulega getað nýst liðinu, sérstaklega í stöðunni 3:3.

Adrenalínið á fullu

„Þú varst ungur einhvern tímann og manst hvernig sú tilfinning var,“ sagði Arnar og brosti þegar hann svaraði blaðamanni.

„Við viljum ekki drepa ákefðina í þessum ungu strákum og þeim leið eins og þeir væru að fara vinna leikinn á þessum tímapunkti. Adrenalínið var á fullu en svo slökknar á þér í eina sekúndu og þeir skora upp úr engu.

Þeir sundurspiluðu okkur aldrei í þessum leik og þessi mörk sem við fáum á okkur, það er auðvelt að laga þau. Þetta er eitthvað sem lærist eftir því sem leikirnir verða fleiri og afmælin fleiri,“ bætti Arnar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert