Ég er ekki að fara neitt

Guðni og leikmenn FH að fagna í leikslok.
Guðni og leikmenn FH að fagna í leikslok. mbl.is/Olafur Ardal

FH er nánast öruggt með Evrópusæti eftir að hafa unnið Víkinga 3:2 á Kaplakrikavelli í dag í efri hluta Bestu deildar kvenna í fótbolta. Þó svo að Þróttur geti jafnað FH að stigum þá er markatalan slík að nánast enginn möguleiki er á að Þróttur komist upp fyrir FH.

Guðni Eiríksson þjálfari FH var að vonum ánægður með niðurstöðu leiksins þegar mbl.is ræddi við hann og fór yfir leikinn með honum.

Mikilvægur sigur á móti Víkingum. Lið sem FH tapaði á móti hér á Kaplakrikavelli í síðustu umferðinni áður en deildin skiptist í efri og neðri hluta. Þið náið forskoti í fínum fyrri hálfleik af ykkar hálfu.

Þið mætið svo dýrvitlausar í seinni hálfleik og virðist ætla að kaffæra leikinn en fáið á ykkur ranglega dæmda vítaspyrnu sem Víkingar jafna úr. Þið lendið síðan í kjölfarið undir áður en ykkur tekst að koma til baka, jafna og komast yfir sem færir ykkur sigurinn. Hvernig var þessi rússíbanaleikur í þínum huga í dag?

„Þú súmmerar þetta bara fínt upp, Jón Kristinn. Við byrjum ágætlega og komumst 1:0 yfir. Að mínu mati fengum við stöður á vellinum til að komast 2:0 og jafnvel 3:0 yfir.

1:0 í hálfleik sem var viðkvæm staða. Ekki ætluðum við að verja hana eins og þú sást þegar við fórum út í seinni hálfleikinn. Við gátum skorað strax á fyrstu sekúndum seinni hálfleiks tvö mörk. Við fengum á okkur víti sem ég skil ekki hvernig dómarinn gat dæmt miðað við hversu vel staðsettur hann var þegar hann dæmir.“

Ég ætla að stoppa þig þarna. Nú hef ég séð þennan dóm margoft í endursýningum og ég get staðfest að það er ekki með nokkrum hætti hægt að sjá að þetta væri víti. Í ljósi þess hvar dómarinn er staðsettur þá hlýtur þetta að vera risa áfellisdómur á dómgæsluna í dag, sérstaklega í ljósi mikilvægi leiksins fyrir FH, ekki satt?

„Ég er algjörlega sammála þér og þetta var svo sannarlega ótrúlegur dómur og hefði getað kostað okkur. Aftur, ég skil þetta ekki. En umræðuefnið mun ekki snúast meira um dómarann í þessu viðtali, en þetta er galið og við sáum það báðir.

En aftur að leiknum að þá lendum við í kjölfarið undir og erum í slæmri stöðu með bakið upp við vegg. Það var gríðarlega sterkt að koma til baka og sem betur fer héldu mínir leikmenn trúnni, jafna leikinn og skoruðu síðan sigurmarkið. Þá var þetta komið í þá stöðu að bara kreysta út sigurinn.“

Staðan er þannig að þetta er nánast komið. Ef við förum í nálaraugað þá er þetta eitt stig sem gulltryggir þetta, ekki satt?

„Ég get fullyrt það Jón Kristinn að við erum ekki að fara tapa 19:0 á móti Breiðabliki í næstu umferð. Við lítum sem svo á að við séum komin með þetta Evrópusæti.“

FH er næstbesta lið landsins

Nú er oft talað um að mikill kostnaður felist í Evrópukeppni fyrir kvennaliðin. Er það eitthvað sem FH-ingar hafa áhyggjur af?

„Nei, engar áhyggjur. FH er næstbesta lið landsins í dag. Taflan sýnir það og spilamennska liðsins í sumar sýnir það. Þetta lið á svo sannarlega skilið að spila í Evrópu þannig að eins og staðan er akkúrat í dag er FH næstbesta lið landsins.

En er liðið ekki kannski rúmlega næstbesta lið landsins í ljósi þess að þið haldið öðru sætinu þrátt fyrir gríðarlega blóðtöku í miðri titilbaráttu þegar þær Arna og Elísa fara erlendis? Annar af þessum leikmönnum var að spila á móti Manchester United sem segir kannski eitthvað um getuna. Hefði ekki verið þægilegra að halda í þessa leikmenn út tímabilið?

„Jú, þegar þú ert svona nálægt þessu. Að sjálfsögðu. En ég er bara starfsmaður á plani og stjórna ekki hverjir eru keyptir eða seldir. Það er stjórn FH sem gerir það og ég virði þá ákvörðun. Hún einfaldaði ekki líf þjálfarans. En við náðum að standa í lappirnar og ég held að við séum að vinna þennan efri hluta eftir að deildin skiptist. Ég held að við séum með flest stig af þessum liðum sem eru í efri hlutanum.

Þannig að við höfum ekki gefið neitt eftir sem er magnað þar sem síðustu tvö ár hefur FH ekki unnið neinn leik eftir að deildin skiptist fram að þessu tímabili. Við erum að brjóta fullt af múrum á þessu tímabili. Síðan er líka svo frábært að sjá að leikmenn eru enn að bæta sig. Hraðasprettir og fleira er enn þá að bætast. Það er ekkert verið að slaka á sem gerir það að verkum að við erum að sækja þessi stig.“

En liggur þá ekki beinast við að vinna Breiðablik?

„Jú, við förum að sjálfsögðu í þann leik til að vinna. Það er ekkert sem mælir gegn því að við getum unnið þann leik. Leikir þessara liða hafa verið gríðarlega spennandi í sumar og algjört stál í stál. Við vorum óheppin að klára ekki leikinn á móti þeim á útivelli þegar við erum 1:0 yfir á 90. mínútu. Við mætum stolt og keik á laugardag.“

Verður Guðni Eiríksson áfram þjálfari FH á næsta tímabili?

„Ég á enn þá ár eftir af samningi mínum þannig ég er ekki að fara neitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka