FH hefur nánast tryggt sér sæti í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á næsta ári eftir sigur á Víkingi, 3:2, í 22. og næstsíðustu umferð Bestu deildar kvenna í Kaplakrika í dag.
Eftir leikinn eru FH-ingar í öðru sæti deildarinnar með 48 stig en Víkingar eru með 28 stig í 6. sæti deildarinnar. Þróttur er í þriðja sæti með 45 stig en með töluvert lakari markatölu og nánast útilokað fyrir liðið að komast upp fyrir FH í lokaumferðinni..
Fyrri hálfleikurinn var mjög rólegur og var lítið um færi en ansi mikið um hornspyrnur eða 12 talsins. Úr einni slíkri kom einmitt eina mark fyrri hálfleiks þegar Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir tók hornspyrnu fyrir markið og þar var Deja Jaylyn Sandoval á réttum stað til að skalla að marki Víkinga. Víkingar virtust ná að bjarga á marklínu en Twana Khalid Ahmed, dómari leiksins, dæmdi mark og staðan orðin 1:0 fyrir FH.
Staðan í hálfleik var 1:0 fyrir FH í tíðindalitlum fyrri hálfleik.
FH-konur mættu dýrvitlausar inn í seinni hálfleikinn og virtust ætla að ganga frá leiknum á fyrstu mínútum seinni hálfleiks þegar þær fengu tvö fín skotfæri.
Það gerðist hins vegar ekki og á 53. mínútu tók Twana Khalid Ahmed skelfilega ákvörðun þegar hann dæmdi vítaspyrnu á Deju Jaylyn Sandoval sem hann vildi meina að hafi brotið á Freyju Stefánsdóttur þegar hún var komin ein inn fyrir vörn FH. Hið rétta var að Deja fór í boltann og dómurinn algjörlega kolrangur hjá dómaranum.
Úr vítaspyrnunni skoraði Linda Líf Boama af miklu öryggi á 54. mínútu.
Þremur mínútum síðar voru Víkingar komnir yfir. Þá gaf Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir frábæra sendingu inn í teig FH og þar var Bergdís Sveinsdóttir mætt sem skoraði fallegt mark með viðstöðulausu skoti og staðan orðin 2:1 fyrir Víkinga.
FH-ingar fengu hornspyrnu á 64. mínútu. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir tók hornspyrnuna og skoraði beint úr henni upp í samskeytin. Stórkostlegt mark og staðan orðin 2:2.
Thelma Lóa Hermannsdóttir skoraði þriðja mark FH á 78. mínútu leiksins eftir frábært samspil milli hennar og Mayu Lauren Hansen. Staðan orðin 3:2 fyrir FH sem urðu lokatölur leiksins.