Kylian Mbappé verður ekki með franska landsliðinu í fótbolta þegar liðið mætir Íslandi í D-riðli undankeppni HM 2026 á Laugardalsvelli á mánudaginn kemur.
Það er franski miðillinn L'Equipe sem greinir frá þessu en Mbappé, sem er 26 ára gamall, meiddist í leik Frakklands og Aserbaídsjan í París í kvöld.
Leiknum lauk með 3:0-sigri franska liðsins þar sem Mbappé skoraði fyrsta markið og lagði það næsta upp en hann meiddist á ökkla undir lok leiksins og þurfti að fara meiddur af velli á 83. mínútu.
Í stað þess að ferðast með franska landsliðinu til Íslands mun hann snúa aftur til félagsliðs síns Real Madrid þar sem hann mun gangast undir frekari rannsóknir vegna meiðslanna.
