Tindastóll vann FHL í afskaplega fjörugum sjö marka leik, 5:2, í lokaumferð neðri hluta Bestu deildar kvenna í fótbolta á Sauðárkróksvelli í dag.
Bæði lið féllu úr Bestu deildinni en Tindastóll endar með 21 stig í níunda sæti og FHL með fjögur í tíunda.
Elísa Bríet Björnsdóttir, sem átti stórleik, kom Tindastóli yfir á áttundu mínútu. Þá gaf María Dögg Jóhannsdóttir boltann fyrir markið og Makala Woods missti af honum. Hann barst þó til Elísu á fjærstönginni sem potaði boltanum inn, 1:0.
Nicola Hauk bætti við öðru marki Tindastóls þremur mínútum síðar þegar hún skallaði hornspyrnu Elísu Bríetar í netið, 2:0.
FHL komst í góðan gír eftir það og skoraði tvö mörk með stuttu millibili. Fyrst skoraði Christa Björg Andrésdóttir þegar Genevieve Crenshaw missti boltann eftir hornspynu og Christa potaði honum í netið, 2:1.
Calliste Brookshire jafnaði síðan metin á 29. mínútu þegar hún slapp í gegn og fór skemmtilega framhjá Genevieve áður en hún renndi boltanum í netið, 2:2.
María Dögg kom Tindastóli aftur yfir á 39. mínútu með glæsilegum skalla í slána og inn eftir aukaspyrnu Elísu Bríetar, 3:2.
Elísa Bríet var síðan aftur á ferðinni á 48. mínútu þegar hún hamraði boltanum í netið af stuttu færi, 4:2.
Fimmta mark Tindastóls var síðan sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá Laufeyju Hörpu Halldórsdóttur, 5:2.