Þróttur vann 1:0 sigur á Stjörnunni í kaflaskiptum leik í næstsíðustu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Garðabæ í dag.
Þrátt fyrir sigurinn á Þróttur nánast enga möguleika á að komast upp fyrir FH í lokaumferðinni vegna markatölunnar en þrjú stig skilja liðin að. Það verður því FH sem fær silfurverðlaunin og leikur í undankeppni Meistaradeildar Evrópu á næsta tímabili.
Þróttur er í þriðja sæti deildarinnar með 45 stig, en Stjarnan vermir enn fjórða sætið með 31 stig.
Þróttarar skoruðu sigurmark leiksins í fyrri hálfleik en Stjörnukonur fengu tilvalið tækifæri til að jafna metin þegar þær brenndu af víti í þeim síðari.
Fyrri hálfleikur fór rólega af stað og var fátt um færi fyrstu mínútur leiksins. Þróttarar héldu meira í boltann, en hvorugu liði tókst að tengja saman margar sendingar og skapa hættuleg færi.
Leikurinn lifnaði síðan við á 21. mínútu, en þá stangaði Kayla Rollins boltann í þaknetið eftir hornspyrnu Þróttar.
Mark getanna hristi upp í heimakonum sem skiptu þá snögglega um gír og hófu að sækja af miklum krafti að marki Þróttar. Þá fengu þær Úlfa Dís Kreye, Birna Jóhannsdóttir og Snædís María Jörundsdóttir allar fín færi til þess að skora, en inn rataði boltinn ekki.
Það var því þvert gegn gangi leiksins þegar Katie Cousins skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu Þróttar rétt undir lok fyrri hálfleiks við gífurlegan fögnuð gestanna.
Sá fögnuður entist þó ekki lengi, en Þórður Þorsteinn Þórðarson, dómari leiksins, dæmdi markið af þar sem hann taldi brotið hafa verið á Jakobínu Hjörvarsdóttur, varnarmanni Stjörnunnar. Var staðan því 1:0 í hálfleik, Þrótti í vil.
Í upphafi seinni hálfleiks héldu Stjörnukonur áfram að sækja og fengu þær tækifæri til þess að jafna metin á 56. mínútu þegar brotið var á Úlfu Dís Kreye í vítateig Þróttar. Þá fór Úlfa Dís sjálf á punktinn, en Mollee Swift valdi rétt horn og sá við spyrnunni í marki Þróttar.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Stjörnunnar til að jafna leikinn vantaði herslumuninn hjá Garðbæingum og tókst þeim ekki að finna glufur á sterkri vörn Þróttar.