Besti leikur Íslands með boltann

Arnar Gunnlaugsson er landsliðsþjálfari Íslands.
Arnar Gunnlaugsson er landsliðsþjálfari Íslands. mbl.is/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, var ánægður með leik Íslands gegn Úkraínu á föstudagskvöld. Ísland mætir Frakklandi á Laugardalsvelli í undankeppni HM karla 2026 annað kvöld.

Blaðamaður spurði landsliðsþjálfarann á blaðamannafundi í dag að því hver væri stærsti lærdómurinn sem liðið gæti dregið af leiknum gegn Úkraínu.

„Góð spurning. Fyrir mig að gera upp leikinn almennilega, þannig að strákarnir okkar haldi áfram að trúa að við séum frábært lið. Leikurinn var frábær á föstudaginn. Þetta er besti leikur sem Ísland hefur spilað með bolta frá upphafi.

Það þarf enginn að trúa mér, en þið getið kíkt á tölfræðina, þetta eru opinberar bækur og allt það. Þá er ég að tala um gegn jafn sterkum andstæðingi og á föstudaginn. Ég veit að Úkraína er töluvert hærra en við á styrkleika og er allavega topp 50 lið (innskot blaðamanns: Úkraína er í 28. sæti á styrkleikalista FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins).

Mögulega þurfum við að fara aftur fyrir topp 100 lið til að finna sambærilega frammistöðu Íslands með boltann en þá erum við farnir að tala um lið eins og San Marino og Lichtenstein.

Pressan okkar var mjög góð, varnarleikur okkar í opnum leik var mjög góður og varnarleikurinn þegar við vorum komnir í skipulag var góður. Undantekningin er annað mark Úkraínu. Það er óheppilegt að því leyti að við vorum komnir í gott skipulag og Mikki (Mikael Egill Ellertsson) hittir bara ekki boltann þegar hann er að hreinsa. Við vitum alveg hvernig hin mörkin komu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert