Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari karlalandsliðs Íslands í fótbolta sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag í aðdraganda leiks Íslands gegn Frakklandi annað kvöld.
Arnar var spurður um áhrifin sem fjarvera lykilmanna franska liðsins gæti haft á morgun. Stórstjarnan Kylian Mbappé framherji Real Madrid, Ousmane Dembélé hjá París SG sem var á dögunum valinn besti leikmaður ársins og Ibrahima Konaté varnarmaður Liverpool verða allir fjarri góðu gamni.
„Þeir eru þá bara með Christopher Nkoku, Michael Oliseh, Maghnes Akliouche, Jean-Philippe Mateta og fleiri góða leikmenn sem koma inn staðinn. Þetta getur verið tvíeggja sverð. Annars vegar munu þeir sakna þessara þriggja leikmanna, stórra stjarna, eða hinsvegar eins og ég á frekar von á að gerist að inn í liðið koma leikmenn sem hafa að miklu að keppa.
Þeir vilja sanna sig til að komast í HM-hóp Frakka. Þetta eru það miklir íþróttamenn og karakterar að þeir munu leysa fjarveru þessara leikmanna með miklum sóma.“
Aðspurður um fjarveru sóknarmanna Íslands og hvort það breyti einhverju hvernig Arnar muni leggja upp leikinn. Orri Steinn Óskarsson fyrirliði Íslands er ekki með í þessu landsliðsverkefni vegna meiðsla og Andri Lucas Guðjohnsen tekur út leikbann í leiknum gegn Frökkum.
„Já, það er leiðinlegt fyrst og fremst að fyrirliðinn okkar Orri Steinn sé ekki að spila. Andri Lucas hefur verið hrikalega öflugur fyrir okkur, en sem betur fer erum við með nokkuð öfluga sóknarmenn sem geta komið í staðinn fyrir Andra Lucas, en það verður bara að koma í ljós á morgun hvernig við leysum það.