Didier Deschamps, þjálfari karlalandsliðs Frakklands í fótbolta, sat fyrir svörum á blaðamannafundi fyrr í dag. Ísland mætir Frakklandi á morgun í 4. umferð D-riðils undankeppni HM 2026 á Laugardalsvelli kl. 18.45.
Hann var þráspurður af frönskum blaðamönnum um áhrif þess að Kylian Mbappé verði ekki með í leiknum.
„Mbappé er lykilmaður hjá okkur og hann gerir gæfumuninn. Við erum með marga leikmenn meidda en við erum samt sem áður með mjög góða breidd og sterkan leikmannahóp.”
Það vantar sterka leikmenn í lið Frakka í leiknum á morgun. Ousmane Dembélé, leikmaður Paris SG, sem kjörinn var besti fótboltamaður ársins á dögunum, er ekki með. Stórstjarnan Kylian Mbappé, leikmaður Real Madrid, verður einnig fjarri góðu gamni. Auk þess vantar Ibrahima Konaté, varnarmann Liverpool.
„Ég treysti á alla mína leikmenn og það eru allir tilbúnir. Nýju leikmennirnir hafa komið vel inn og náð að aðlagast vel. Margir þeirra eru ungir og eru í lærdómsferli og það tekur tíma.“
Aðspurður um styrkleika íslenska liðsins sagði þjálfarinn. „Íslenska liðið er þekkt fyrir mikla baráttu, en þeir eru líka með tæknilega góða leikmenn eins og Hákon Haraldsson og Albert Guðmundsson og við þurfum að hafa góðar gætur á þeim. Þetta verður erfiður leikur. Nýi völlurinn hér er mjög góður, en við þurfum að venjast veðrinu.“
Þá var þjálfarinn einnig spurður út í Adrien Rabiot miðjumann, en hann er ekki vinsæll meðal stuðningsmanna franska liðsins og hafa þeir baulað á hann í leikjum Frakka.
„Rabiot er með mikinn leikskilning og sýnir mikil gæði. Hann hentar okkar leikkerfi vel, hann getur hreyft boltann hratt og vel á milli manna. Hann er reynslumikill leikmaður og hefur spilað vel fyrir okkur í mörg ár.“