Hákon Arnar Haraldsson er fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í leiknum gegn Frakklandi á morgun. Hákon sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag.
Hann var spurður að því hvernig gengið hefði að hrista af sér tapið gegn Úkraínu.
„Það hefur bara gengið vel og menn eru bara léttir. Það var erfitt á föstudaginn og á laugardaginn, en í dag er nýr dagur og svo er risaleikur á morgun á móti geggjuðu liði og menn eru klárir í þetta.“
Ísland tapaði naumlega 2:1, fyrir stórliði Frakklands þegar liðin áttust við á Parc des Princes-vellinum í París í september. Íslendingar töldu sig hafa jafnað metin undir lok leiksins. Hákon Arnar gaf þá frábæra sendingu fyrir markið á Andra Lucas Guðjohnsen sem skoraði af stuttu færi í annarri tilraun.
Því miður greip VAR-myndbandsdómgæslan inn í og dómarinn dæmdi markið af þar sem honum þótti Andri Lucas hafa brotið á Ibrahima Konate áður en hann skoraði.
„Mér fannst við spila mjög flottan leik úti á móti þeim síðast og mér fannst þetta ekki vera brot í markinu sem við skoruðum. Þannig leikurinn hefði átt að enda 2:2.“