Ísland og Frakkland mætast á Laugardalsvelli í undankeppni HM karla 2026 í fótbolta. Mike Maignan, markvörður Frakklands og AC Milan í ítölsku A-deildinni, verður með fyrirliðabandið í fjarveru Kylian Mbappé.
Maignan sat fyrir svörum á blaðamannafundi fyrr í dag.
„Ég er stoltur af því að vera fyrirliði, en ég mun nálgast leikinn á sama hátt. Þetta hefur engin veruleg áhrif á mig. Ég spila minn venjulega leik og þarf að halda góðri einbeitingu og stjórna vörninni vel.
Mbappé er fyrirliði og við munum sakna hans, en við vinnum vel saman sem lið og erum með góða reynslu.
Við erum vanir því að spila undir pressu og flestir okkar leikmenn spila fyrir stór lið. Við erum með marga unga leikmenn sem þurfa að læra hratt, en þeir búa yfir miklum fótboltalegum gæðum.
Allir leikir eru erfiðir og við þurfum að vera mjög einbeittir. Við megum ekki hugsa of langt fram í tímann, en við ætlum okkur að sækja þau þrjú stig sem eru í boði.“
