Við þurfum að vera 120%

Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari Íslands er meðvitaður um að íslenska liðið …
Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari Íslands er meðvitaður um að íslenska liðið þarf að eiga toppleik til að ná í úrslit. mbl.is/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari karlalandsliðs Íslands í fótbolta, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag í aðdraganda leiks Íslands gegn Frakklandi annað kvöld.

Arnar var spurður að því hvort hann hygðist leggja leikinn upp með svipuðum hætti og í fyrri leik liðanna ytra.

„Já við þurfum að vera sveigjanlegir, hvort sem við erum í fimm manna eða fjögurra manna vörn. Þeir munu henda á okkur árásum úr öllum áttum. En frammistaðan var alls ekki fullkomin ef ég á að vera heiðarlegur við leikmennina og mér fannst við fá aðeins of mikið af færum á okkur, en Elías (Rafn Ólafsson) bjargaði nokkrum sinnum mjög vel.

Það var létt yfir leikmönnum íslenska liðsins á lokaæfingu þess …
Það var létt yfir leikmönnum íslenska liðsins á lokaæfingu þess fyrir leikinn á morgun. mbl.is/Hulda Margrét

Við vorum 90% í lagi í taktíkinni en til þess að eiga möguleika á móti svona þjóð þurfum við að vera 120%. Frammistaðan var ekki jafn frábær og fullkomin og margir halda og allir tala um, en endirinn var auðvitað svekkjandi.

Mögulega skorum við löglegt mark og þá voru allir brjálaðir. Þegar við horfum blákalt á leikinn þá áttu Frakkar mögulega skilið að vinna leikinn út frá tölfræði og hvernig leikurinn þróaðist. En dramatíkin í lokin gerði það að verkum að við gátum stolið stigi og miðað við viðbrögð varnarmanna Frakka þá átti markið að standa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert