Arnar grínaðist: „Þau voru bæði Gulla að kenna!“

Arnar Gunnlaugsson kátur á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson kátur á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þau voru bæði Gulla að kenna! Þetta er bara Gulli,“ sagði Arnar Gunnlaugsson í léttum dúr þegar hann var spurður út í mörkin sem Ísland fékk á sig í 2:2 jafntefli gegn Frakklandi í undankeppni HM 2026 í fótbolta karla á Laugardalsvelli í kvöld.

Þá hafði verið bent á að mörkin tvö komu bæði hans megin. Arnar kom Guðlaugi Victori Pálssyni til varnar og benti á gífurlega gæði innan franska liðsins.

„Fyrra markið er náttúrlega bara geggjað mark hjá þeim. Ef við myndum frysta alla ramma gætum við alltaf fundið eitthvað að hjá einhverjum. Sverrir steig of fljótt upp og Gulli sat eftir og þar fram eftir götunum.

En við erum bara að glíma við heimsklassa leikmenn. Ég vil frekar einhvern veginn horfa á það að stundum ertu bara í augnablikinu að spila á móti klassa leikmönnum og þeir bara fundu gat á okkur og svo kemur markið hjá Nkunku.

Þetta eru gaurar sem kosta grilljónir. Það er bara kredit á þá, geggjuð mörk hjá þeim. Gátum við gert betur? Já, að sjálfsögðu en kredit á Frakkana fyrir að skora þessi frábæru mörk,“ sagði Arnar á fréttamannafundi eftir leikinn.

Seinna markið gladdi mig mikið

„Ég vil líka tala um mörkin okkar, eins og annað markið okkar. Mér fannst það líka hrikalega flott mark. Uppspils mark eftir pressu Frakkanna.

Þetta er einmitt það sem ég var að predika við strákana, að vera svalir á boltanum og kaldir. Í sumum leikjum ertu minna með boltann, í öðrum ertu meira með boltann. En þegar einhver augnablik koma í leiknum þá kikkar inn eitthvað vöðvaminni sem tekur við.

Strákarnir hafa fullt leyfi til þess að ráðast á augnablikin þegar þau gerast, í þau fáu skipti sem þau gerðust í kvöld. Það mark gladdi mig mjög mikið,“ bætti hann við.

Sýnir karakterinn hans

Arnar var svo spurður, með tilvísan í ummæli sín eftir síðasta leik gegn Úkraínu á föstudagskvöld, hvort Guðlaugur Victor væri ekki hreinlega aftur orðinn bestur í heimi, en hann skoraði fyrsta mark leiksins.

„Maður sendir skilaboð til leikmanna og reynir að telja þeim trú um að þeir séu bestir og hann hefur allavega aldrei brugðist mér og að mér vitandi ekki þjóðinni heldur. Hann átti klárlega ekki leik upp á tíu á móti Úkraínu og átti klárlega ekki að fá tvist í einkunn.

Hann var ekki eins slæmur og margur heldur en karakterinn hjá honum og hversu mikill stríðsmaður hann er sýndi sig í kvöld,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert