Didier Deschamps, þjálfara franska landsliðsins í fótbolta karla, fannst Guðlaugur Victor Pálsson vera brotlegur áður en hann skoraði fyrir Ísland í 2:2 jafntefli liðanna á Laugardalsvelli í kvöld.
Þetta sagði Deschamps á fréttamannafundi eftir leikinn. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands, var spurður út í þessi ummæli franska þjálfarans á fréttamannafundi sínum eftir leik.
„Við erum náttúrlega með VAR og allt svoleiðis. Mér fannst Gulli bara sterkur í þessu augnabliki, hann bara ætlaði sér að skora. Það má vel vera að það hafi verið brot en það bara skiptir engu máli núna,“ sagði Arnar.
Franskur fréttamaður spurði hann svo nánar út í atvikið og hvaða þýðingu þessi úrslit hefðu fyrir Ísland.
„Ég tel að leikmaður minn hafi verið sterkari í einvíginu í vítateignum þegar markið var skorað. Kannski var þetta brot, kannski ekki. Það skiptir í raun engu máli núna.
Ég tel þetta hafa verið fagurt ljóðrænt réttlæti eftir það sem gerðist í París á lokamínútunni þegar það var dæmt brot á okkar leikmann. Stundum er karma gott,“ svaraði Arnar og vísaði til þess þegar mark Andra Lucasar Guðjohnsen, sem hefði verið jöfnunarmark, var dæmt af fyrir litlar sem engar sakir.
„Varðandi úrslitin þá veit ég að það er eðlilegt fyrir Frakkland að ná í frábær úrslit út um allan heim en fyrir okkur eru þetta ein bestu úrslitin í sögu okkar. Við spiluðum gegn mjög góðu liði, einu af þremur bestu liðum heims.
Það vantaði góða leikmenn í bæði lið, við söknum líka nokkurra lykilmanna. Við sýndum mikið hjarta og karakter. Við vorum auðvitað varnarsinnaðir og þurftum mikið að þjást. En það sem gladdi mig mest var að við gátum stigið upp og náð að pressa á nokkrum tímapunktum.
Við vorum ekki allan tímann aftarlega á vellinum eins og Aserbaísjan gerði í París. Við vildum tjá okkur og sýna okkur. Seinna markið okkar var mjög gott, það var í hæsta klassa,“ sagði íslenski landsliðsþjálfarinn einnig.