Frækið jafntefli Íslands gegn Frakklandi

Ísland og Frakkland skildu jöfn, 2:2, í æsispennandi leik í 4. umferð D-riðils undankeppni HM 2026 í fótbolta karla á Laugardalsvelli í kvöld.

Eftir leikinn er Frakkland áfram á toppi riðilsins, nú með tíu stig, og Ísland er í þriðja sæti með fjögur.

Frakkar fengu fyrsta góða færi leiksins eftir einungis tæplega tveggja mínútna leik. Michael Olise tók þá hornspyrnu frá vinstri, eftir skallabaráttu barst boltinn til Christopher Nkunku hægra megin við markteiginn, tók skotið í nærhornið en Elías Rafn Ólafsson varð glæsilega með fótunum.

Gestirnir voru meira með boltann eins og við mátti búast og fékk Jean-Philippe Mateta fínt færi á 21. mínútu. Olise slapp þá einn vinstra megin í vítateignum, gaf fyrir á Mateta á nærstöngina sem tók slakt skot úr góðu færi sem fór framhjá fjærstönginni.

Fyrsta marktilraun Íslands kom loks á 28. mínútu þegar Mikael Egill Ellertsson gerði vel í að koma sér fram fyrir Dayot Upamecano við D-bogann, Sævar Atli Magnússon tók boltann og reyndi skot nýkominn inn í vítateiginn en William Saliba komst fyrir skotið.

Ísland komst óvænt yfir

Á 39. mínútu gerði Sævar Atli glæsilega í að smeygja sér fram fyrir Saliba sem hafði unnið boltann, miðvörðurinn braut á Sævari Atla vinstra megin við vítateiginn og Ísland fékk aukaspyrnu á góðum stað. Í kjölfarið náði Ísland forystunni.

Albert Guðmundsson tók aukaspyrnuna, gaf á nærstöngina þar sem Guðlaugur Victor Pálsson var í baráttunni við Eduardo Camavinga og reyndi skot, Camavinga stóð ofan í honum og komst fyrir það, boltinn staðnæmdist við markteiginn þar sem Guðlaugur Victor var fljótur að átta sig og tæklaði boltann í netið.

Staðan orðin 1:0 og gerðu Frakkarnir sig mjög líklega til að jafna metin áður en fyrri hálfleikurinn var úti. Á fjórðu mínútu uppbótartíma gaf Florian Thauvin fyrir frá hægri, Olise náði skalla á nærstönginni en Elías Rafn varði glæsilega.

Mateta náði frákastinu og þrumaði að marki en skaut beint í Mikael Egill Ellertsson sem bjargaði rétt fyrir framan marklínuna. VAR athugaði hvort skot Mateta hafi farið í höndina á Mikael Agli en svo var ekki.

Ísland var því einu marki yfir í hálfleik.

Þrjú mörk með stuttu millibili

Síðari hálfleikur hófst með svipuðum hætti og sá fyrri. Frakkar héldu boltanum og komu sér nokkrum sinnum í álitlegar stöður án þess að skapa sér mjög hættuleg færi.

Það átti allt saman eftir að breytast eftir um klukkutíma leik. Fyrst átti Olise skot beint úr aukaspyrnu hægra megin við vítateiginn sem fór af varnarmanni Íslands, barst til Nkunku sem þrumaði yfir markið vinstra megin við markteiginn.

Tveimur mínútum síðar, á 63. mínútu, skoraði Nkunku. Hann var þá með töluvert pláss á vinstri kantinum, lék inn í vítateiginn og þrumaði boltanum niður í fjærhornið með hægri fótar skoti.

Fimm mínútum síðar náðu Frakkar forystunni þegar varamaður Maghnes Akliouche gerði vel í að skapa sér svæði vinstra megin í vítateignum og renna boltanum þvert fyrir markið þar sem Mateta beið átekta og tæklað boltann í netið nánast á marklínu.

Staðan þá skyndilega orðin 1:2, Frakklandi í vil, en íslenska liðið var ekki lengi að jafna metin í 2:2.

Ísland komst í skyndisókn á 70. mínútu, Frakkar voru einkar fáliðaðir til baka og Albert renndi boltanum til hliðar á varamanninn Kristian Nökkva Hlynsson sem var aleinn í gegn, hélt ró sinni og kláraði með glæsilegu skoti yfir Mike Maignan í marki Frakklands.

Eftir jöfnunarmark Íslands fengu bæði lið nokkrar góðar stöður en gátu ekki nýtt þær til þess að skapa sér nægilega góð færi.

Fór svo að leiknum lauk með jafntefli og er það í fimmta sinn sem þessar þjóðir gera jafntefli í 17 leikjum. Frakkland hefur unnið hina leikina tólf.

Ísland 2:2 Frakkland opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert