Helvíti stressaður á bekknum

Daníel, númer 21, fylgist með Hákoni Arnari Haraldssyni í hasar …
Daníel, númer 21, fylgist með Hákoni Arnari Haraldssyni í hasar í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er geggjað að ná jafntefli á móti Frökkum og við hefðum getað unnið þennan leik,“ sagði Daníel Tristan Guðjohnsen, landsliðsmaður í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli á móti Frakklandi í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld.

Ísland var með 1:0-forskot í hálfleik en Frakkar sneru leiknum sér í vil í seinni hálfleik, áður en Kristian Nökkvi Hlynsson tryggði íslenska liðinu eitt stig.

„Við lentum undir þegar ég var kominn út af og maður var helvíti stressaður á bekknum. Við gerðum vel í að koma vel til baka.

Það er svo mikið sem maður getur hugsað á bekknum. Mér leið samt vel og ég var viss um að við myndum jafna. Ég var mjög ánægður þegar Kristian setti hann.“

Daníel spilaði aðeins fyrri hálfleikinn í kvöld. „Auðvitað vil ég spila alla leiki og eins mikið og hægt er. Arnar ræður og þetta var taktískt.“

Daníel var að spila fyrir framan fullan Laugardalsvöll í fyrsta skipti í kvöld.

„Það var geggjað. Að heyra í þeim var besta tilfinningin. Nú eru mjög miklar líkur á að við tökum þetta annað sæti,“ sagði Daníel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert