Jafntefli á móti Frökkum geðveik úrslit

Hákon með boltann í kvöld.
Hákon með boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var mjög flott liðsframmistaða,“ sagði Hákon Arnar Haraldsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta gegn Frakklandi, eftir 2:2-jafntefli við stórþjóðina á Laugardalsvelli í kvöld.

„Allir gáfu allt og jafntefli á móti Frökkum er geðveik úrslit. Mér leið vel í leiknum og við vorum flottir allan tímann. Auðvitað fengum við einhver færi á okkur, það er eðlilegt. Við vorum samt flottir, vörðumst vel og pressuðum vel,“ bætti hann við í samtali við mbl.is.

Ísland tapaði fyrir Úkraínu, 5:3, á föstudagskvöld en svaraði vel í kvöld.

„Það var erfitt en þú verður að taka 24 tíma, hugsa um leikinn og læra af honum. Eftir það tekur næsti leikur við. Við gerðum það gríðarlega vel og urðum þéttari eftir þennan skell,“ sagði hann.

Hákon spilar með Lille í Frakklandi en það var ekki mikið öðruvísi að mæta Frökkunum en öðrum landsliðum.

„Það er eiginlega enginn sem spilar í frönsku deildinni. Ég skildi samt helling inni á vellinum. Þetta var samt ekki þannig öðruvísi,“ sagði hann.

Ísland leikur við Úkraínu og Aserbaídsjan á útivelli í nóvember. Tveir sigrar duga líklegast til að ná öðru sætinu og umspili um sæti á HM.

„Við eigum tvo erfiða útileiki eftir og við verðum að vera klárir í þá. Vonandi fáum við úrslitaleik á móti Úkraínu,“ sagði Hákon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert