Elías Rafn Ólafsson varði mark Íslands í 2:2-jafnteflinu við Frakkland í undankeppni HM karla í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld. Eins og gefur að skilja var hann sáttur við eitt stig gegn einu besta landsliði heims.
„Það var geggjað að fá stig út úr þessum leik og sigurinn hefði alveg getað dottið okkar megin. Þetta er stig sem þarf að virða samt,“ sagði hann við mbl.is og hélt áfram:
„Við höfum trú á verkefninu þótt við lentum undir. Við missum ekki trúna. Það var æðislegt að sjá Kristian koma inn á og skora þetta mark.“
Ísland leikur útileiki við Aserbaídsjan og Úkraínu í nóvember og þá ráðast örlög liðsins í undankeppninni.
„Þetta er alltaf næsti leikur. Það er sama gamla klisjan. Við stefnum á að klára Aserana úti og fá úrslitaleik á móti Úkraínu,“ sagði Elías.
