Þá er erfitt að vera þreyttur

Daníel Leó fagnar marki með liðsfélögum sínum í kvöld.
Daníel Leó fagnar marki með liðsfélögum sínum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta voru nokkuð góð úrslit fyrir okkur,“ sagði Daníel Leó Grétarsson, varnarmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, eftir jafntefli við Frakkland, 2:2, í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld.

„Auðvitað viljum við alltaf vinna á heimavelli, líka á móti Frakklandi. Maður þarf samt að vera raunsær líka. Þeir eru mjög sterkir. Við tökum stigið og förum í næsta glugga með sjálfstraust,“ sagði hann.

Daníel var að sjálfsögðu ánægður með spilamennskuna, gegn einu allra besta landsliði heims.

„Við þurftum að verjast meira í seinni hálfleik en við vissum að við gætum sært þá í skyndisóknum og við gerðum það. Við spiluðum vel í dag og við tengjum betur og betur saman.“

Daníel var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í tveimur heimaleikjum í röð þar sem er uppselt á Laugardalsvöll.

„Það var geggjað. Maður finnur aukakraft og það er erfitt að vera þreyttur þegar þú ert með fullan völl hérna og allir eru að syngja og hafa gaman. Ef við vinnum næstu tvo þá lítur þetta vel út og við getum enn náð markmiðunum okkar,“ sagði Daníel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert