„Þetta var geggjuð frammistaða hjá strákunum. Þetta var virkilega erfiður leikur á móti frábæru liði. Ekki bara knattspyrnulega heldur gegn líkamlega sterku liði. Við svöruðum eftir vonbrigðaúrslitin á föstudaginn,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, á fréttamannafundi eftir glæsilegt jafntefli gegn Frakklandi í kvöld.
„Við sýndum sterkan og agaðan leik, lærðum af okkar mistökum og allir áttu frábæran leik. Allt frá fyrsta manni í byrjunarliði og allir þeir sem komu inn á. Allir voru agaðir og sterkir í þessum leik.
Það þarf sterkan haus til þess að þola svona leik. Ég hef spilað svona leik sjálfur á móti sterku liði. Að lenda svona undir, það getur verið ansi einmanalegt á vellinum en einhvern veginn héldu allir sér inni í leiknum.
Frábær stuðningur frá fólkinu okkar og á endanum eru þetta bara úrslit sem við eigum að vera mjög stoltir af,“ hélt Arnar áfram.
Hann neyddist til að gera breytingu fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Sævar Atli Magnússon meiddist. Daníel Tristan Guðjohnsen var svo tekinn af velli í hálfleik.
„Sævar Atli, hvort hann hafi fengið eitthvað högg eða lent illa? Hann bað um skiptingu og það þarf að vera mikið að til að hann fari út af. Daníel Tristan stóð sig hrikalega vel og var búinn að hlaupa úr sér lungun.
Þetta var svona leikur þar sem við þurftum alltaf að fá ferskar lappir inn á réttum augnablikum af því að ef við myndum missa meðbyrinn myndu Frakkarnir bara valta yfir okkur. Við vildum fá ferskar lappir og ferskleika inn í liðið aftur,“ sagði Arnar um skiptingarnar tvær.