„Við vildum ná í úrslit í þessum leik, það var mjög mikilvægt til að vera inni í næstu tveimur leikjum sem eru úrslitaleikir,“ sagði Kristian Nökkvi Hlynsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, eftir 2:2-jafntefli við Frakkland í undankeppni HM á heimavelli í kvöld.
Kristian kom inn á af varamannabekknum í hálfleik og skoraði jöfnunarmark Íslands á 70. mínútu.
Hvernig var að skora jöfnunarmarkið?
„Geggjað, það er erfitt að lýsa tilfinningunni að sjá boltann í netinu.
Maður er kominn einn í gegn og það eina sem maður hugsar um er að setja boltann í netið, ekkert mikið pælt í þessu á undan,” sagði Kristian við mbl.is eftir leikinn.
Ísland fékk eitt stig í glugganum og er núna þremur stigum á eftir Úkraínu í D-riðli.
„Smá svekkjandi því við vorum komnir í góð mál í 3:3 á móti Úkraínu en við misstum það niður svo það er svekkjandi. Það eru tveir úrslitaleikir fram undan en við vissum af því fyrir fram, hvort sem við myndum vinna eða ekki, það er bara mikilvægt að klára þetta í næsta glugga.”
Ísland er með nokkuð ungt lið og Kristian er einn af yngstu leikmönnum liðsins.
„Maður fær meiri reynslu með hverjum einasta leik og mér finnst góð blanda í hópnum, ungir og eldri leikmenn og þetta er góð blanda.”
Þetta var annað mark Kristians í átta landsleikjum og hann átti ágætis glugga.
„Auðvitað hefði maður viljað spila fleiri landsleiki á undan þessum glugga en maður er að komast inn í þetta núna sem er geggjað.”