„Við þurfum að trúa“

Hákon Arnar Haraldsson og Arnar Gunnlaugsson ræddu við fréttamenn eftir …
Hákon Arnar Haraldsson og Arnar Gunnlaugsson ræddu við fréttamenn eftir æfingu íslenska liðsins á Laugardalsvelli í gær. Morgunblaðið/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta þarf sárlega á stigum að halda þegar það mætir Frakklandi í kvöld í 4. umferð D-riðils undankeppni HM 2026 á Laugardalsvelli kl. 18.45. Ljóst er að verkefnið verður ærið enda Frakkar með eitt sterkasta lið heims. Þeir eru í 2. sæti á styrkleikalista FIFA en íslenska liðið er í 74. sæti listans.

Ísland tapaði 5:3 gegn Úkraínu á Laugardalsvelli á föstudag og hefur varnarleikur íslenska liðsins í leiknum verið í brennidepli í umræðunni eftir leik.

Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari var þó ánægður með varnarleikinn að stærstu leyti. „Pressan var mjög góð, varnarleikur okkar í opnum leik var mjög góður og varnarleikurinn þegar við vorum komnir í skipulag var góður. Undantekningin er annað mark Úkraínu.“

Frábær leikur gegn Úkraínu

Blaðamaður spurði landsliðsþjálfarann á blaðamannafundi í gær hver væri stærsti lærdómurinn sem liðið gæti dregið af leiknum gegn Úkraínu.

„Góð spurning. Fyrir mig er það að gera upp leikinn almennilega, þannig að strákarnir okkar haldi áfram að trúa að við séum frábært lið. Leikurinn var frábær á föstudaginn. Þetta er besti leikur sem Ísland hefur spilað með bolta frá upphafi, þá á ég við gegn jafn sterkum andstæðingi og Úkraínu.“

Ég veit að 95% af þjóðinni hafa mikið vit á sinni íþrótt og trúa mér líka. Hin fimm prósentin – það er bara gaman að hlusta á bullið hjá sumum. Leikurinn var skemmtilegur. Var hann fullkominn? Nei, af því að við töpuðum honum og töpuðum honum illa og þurfum bara að læra af því,“ sagði Arnar.

Átti að enda með jafntefli

Ísland tapaði naumlega, 2:1, fyrir Frakklandi í fyrri leik liðanna, en liðin áttust við á Prinsavöllum í París í september.

Hákon Arnar Haraldsson mun áfram bera fyrirliðabandið í kvöld í fjarveru Orra Steins Óskarssonar. Hákon var ánægður með frammistöðu íslenska liðsins í fyrri leik liðanna, þar sem Íslendingar töldu sig hafa jafnað metin undir lok leiksins en eftir myndbandsdómgæslu var markið dæmt af.

„Mér fannst við spila mjög flottan leik úti á móti Frökkum og mér fannst þetta ekki vera brot í markinu sem við skoruðum. Þannig að leikurinn hefði átt að enda 2:2. Það hefur gengið vel að ná úr sér leiknum gegn Úkraínu og menn eru bara léttir. Það var erfitt fyrst um sinn, en svo er fram undan risaleikur á móti geggjuðu liði og menn eru klárir í þetta,“ sagði Hákon Arnar.

Mikil virðing fyrir Frökkum

„Við berum auðvitað mikla virðingu fyrir Frökkum, þannig að ég held að leikplanið verði það sama. Auðvitað mun það svo ráðast hvernig leikmyndin verður í leiknum, en ég held að það væri snarvitlaust ef við ætluðum að fara í einhvern brjálæðislegan fótbolta.

Markmiðin breytast, við ætluðum okkur sigur gegn Úkraínu en það tókst ekki. Þetta snýst allt um að eiga möguleika þegar við mætum Úkraínu í lokaleiknum,“ sagði Hákon.

Orri Steinn Óskarsson, fyrirliði íslenska liðsins, er meiddur og tekur ekki þátt í leiknum. Þá tekur Andri Lucas Guðjohnsen út leikbann vegna gulra spjalda, en hann var bókaður í leiknum gegn Úkraínu. Því verður fróðlegt að sjá hver mun leiða framlínu Íslands í kvöld.

„Það er fyrst og fremst leiðinlegt að fyrirliðinn okkar Orri Steinn sé ekki að spila. Andri Lucas hefur einnig verið hrikalega öflugur fyrir okkur. Sem betur fer erum við með nokkuð öfluga sóknarmenn sem geta komið í stað Andra, en það verður bara að koma í ljós hvernig við leysum það,“ sagði Arnar.

Frakkar án Mbappé

Það vantar sterka leikmenn í lið Frakka í kvöld. Ousmane Dembélé, leikmaður Paris SG, sem kjörinn var besti fótboltamaður heims á dögunum, er ekki með. Stórstjarnan Kylian Mbappé, leikmaður Real Madrid, verður einnig fjarri góðu gamni. Auk þess vantar Ibrahima Konaté varnarmann Liverpool.

Didier Deschamps þjálfari Frakka var þráspurður af frönskum blaðamönnum um áhrif þess að Mbappé verði ekki með í leiknum.

„Mbappé er lykilmaður hjá okkur og hann gerir gæfumuninn. Við erum með marga leikmenn meidda en við erum samt sem áður með mjög góða breidd og sterkan leikmannahóp.“

Spurður um styrkleika íslenska liðsins sagði þjálfarinn: „Íslenska liðið er þekkt fyrir mikla baráttu, en þeir eru með tæknilega góða leikmenn eins og Hákon og Albert og við þurfum að hafa góðar gætur á þeim. Þetta verður erfiður leikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka