Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands í fótbolta, var allt annað en sáttur við markið sem Guðlaugur Victor Pálsson skoraði í leik Íslands og Frakklands í undankeppni HM á Laugardalsvelli í gær.
Guðlaugur Victor kom Íslandi yfir á 39. mínútu og var Deschamps ósáttur við að íslenski varnarmaðurinn hefði ekki verið dæmdur brotlegur.
„Þetta var augljóst brot á Manu Kone í fyrsta markinu. Ég ætla samt ekki að fara að væla, en dómararnir voru sofandi. Þeir sáu þetta ekki.
Ég ætla samt ekki að kenna dómaranum um en það voru lítil atriði líka. Kannski hafði umhverfið áhrif á hans frammistöðu,“ sagði Deschamps við TF1.

