Fyrsti sigur Íslands kom í Laugardalnum

Íslenska U21 árs landslið karla í fótbolta hafði betur gegn Lúxemborg, 2:1, í undankeppni EM á Þróttarvelli í Laugardalnum í dag. 

Þetta var fyrsti sigur Íslands í þessari undankeppni en íslenska liðið er komið í þriðja sæti þriðja riðils með tvö stig eftir fjóra leiki og Lúxemborg í botnsætinu með eitt stig eftir þrjá leiki. Liðin mætast síðan aftur í Lúxemborg í næsta landsleikjaglugga. 

Benoný Breki Andrésson kom Íslandi yfir á 28. mínútu leiksins. Þá tók Jóhannes Kristinn Bjarnason hornspyrnu inn í teiginn sem var í lægri kantinum og boltinn barst til Benonýs sem náði að stýra honum í netið, 1:0.

Hilmir Rafn Mikaelsson faðmar Benoný Breka Andrésson sem kom Íslandi …
Hilmir Rafn Mikaelsson faðmar Benoný Breka Andrésson sem kom Íslandi yfir. Ljósmynd/Árni Torfa

Aðeins níu mínútum síðar tókst Lúxemborg að jafna. Þá átti Diego Duarte frábæra sendingu inn á teig sem Jayson Videira náði að stanga í netið, 1:1. 

Gestirnir frá Lúxemborg fagna.
Gestirnir frá Lúxemborg fagna. Ljósmynd/Árni Torfa

Íslenska liðið var töluvert betra í seinni hálfleik og á 61. mínútu skoraði Jóhannes Kristinn. Þá fékk hann boltann inni á teignum frá Hauki Andra Haraldssyni og reyndi skot sem vörn Lúxemborgar komst fyrir. Boltinn barst hins vegar aftur til Jóhannesar sem lét ekki bjóða sér slíkt færi í tvígang og skoraði, 2:1.

Djabi Embalo úr Lúxemborg fékk sitt seinna gula spjald undir blálok leiks þegar hann reyndi að fiska víti inni í teig Íslands eftir baráttu við markmanninn Lúkas Petersson. Dómarinn lét sér fátt um finnast og rak Embalo af velli. 

Hlynur Freyr Karlsson í baráttunni við Joao Margato markmann Lúxemborg.
Hlynur Freyr Karlsson í baráttunni við Joao Margato markmann Lúxemborg. Ljósmynd/Árni Torfa
Baldur Kári Helgason rétt missir boltann frá sér í baráttunni …
Baldur Kári Helgason rétt missir boltann frá sér í baráttunni við Miguel Goncalves fyrirliða Lúxemborgar. Ljósmynd/Árni Torfa



Ísland U21 2:1 Lúxemborg U21 opna loka
90. mín. Fjórum mínútum bætt við leikinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert