Margir erlendir fjölmiðlar fjalla um leik Íslands og Frakklands í undankeppni HM karla í fótbolta á Laugardalsvelli í gærkvöldi.
Einn þeirra er Goal og þar gefur blaðamaður miðilsins öllum leikmönnum franska liðsins einkunnir. Óhætt er að segja að margir leikmenn franska liðsins fái falleinkunn.
Þrír leikmenn og þjálfarinn Didier Deschamps fá t.a.m. falleinkunn.
Byrjunarliðið:
Mike Maignan (4/10): Lélegur í föstum leikatriðum og lokaði ekki vel á Kristian. Gaf svo næstum því mark þegar hann rann á boltanum.
Jules Kounde (4/10): Kolvitlaust staðsettur þegar Ísland jafnaði.
Dayot Upamecano (4/10): Jafn lélegur og aðrir í franska liðinu þegar Ísland skoraði fyrsta markið. Var líka illa staðsettur þegar Ísland jafnaði.
William Saliba (5/10): Gaf Íslandi óþarfa aukaspyrnu í fyrsta markinu. Virkaði stressaður.
Lucas Digne (6/10): Nálægt því að skora frá miðju og komst í færi. Slappur í varnarleiknum.
Eduardo Camavinga (5/10): Átti sinn þátt í fyrra marki Íslands og var lélegur án boltans.
Manu Kone (6/10): Besti varnarsinnaði leikmaður Frakka í leiknum.
Florian Thauvin (6/10): Átti flotta fyrirgjöf sem Olise nýtti ekki og skoraði næstum því úr hjólhestaspyrnu.
Michael Olise (7/10): Nálægt því að skora í fyrri og var alltaf hættulegur.
Jean-Philippe Mateta (6/10): Fór illa með eitt færi og átti sök í fyrra marki Íslands. Skoraði í seinni en hann er enginn Mbappé.
Christopher Nkunku (7/10): Fór illa með tvö færi en skoraði mark sem var í heimsklassa.
Varamenn:
Maghnes Akliouche (7/10): Lagði upp markið á Mateta.
Khephren Thuram (6/10): Frakkar voru með meiri stjórn eftir að hann kom inn á.
Kingsley Coman (6/10): Átti tvö hættuleg hlaup sem ekkert varð úr.
Hugo Ekitike (engin einkunn): Kom inn á sem varamaður á 88. mínútu. Furðulegt hvað það tók langan tíma.
Þjálfarinn:
Didier Deschamps (4/10): Alls ekki góð frammistaða hjá Frakklandi. Sóknarleikurinn var lélegur og vörnin var hikandi á móti góðri pressu íslenska liðsins. Vantaði lykilmenn sem hjálpaði ekki.