„Ég er ánægður með þennan hóp og er bjartsýnn á að við eigum eftir að gera vel,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, í samtali við mbl.is í dag.
Landsliðshópurinn fyrir tvo leiki við Norður-Írland í umspili um sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar var tilkynntur í dag.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Guðný Árnadóttir og Natasha Anasi eru allar meiddar og þá er Dagný Brynjarsdóttir barnshafandi.
María Catharina Ólafsdóttir Gros, Thelma Karen Pálmadóttir og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir eru allar nýliðar og þá koma Arna Eiríksdóttir og Emilía Kiær Ásgeirsdóttir einnig inn í hópinn.
„Auðvitað koma hluti breytinganna til vegna meiðsla og öðru, eins og gengur og gerist. Það eru óvenjumargar sem eru alveg frá. Það er samt jákvætt að fara inn í nýja keppni með eitthvað af nýjum leikmönnum,“ sagði Þorsteinn.
En hvers vegna valdi hann nýliðana þrjá í hópinn?
„Ég er ánægður með það sem ég hef séð frá þeim að undanförnu. Þær hafa verið að standa sig vel og sýnt miklar framfarir. Thelma hefur vaxið vel á þessu ári og verið virkilega flott. Hún hefur hraða og tækni og með þá blöndu geturðu gert ýmislegt,“ sagði Þorsteinn.