Arnar Gunnlaugsson getur borið höfuðið hátt ásamt lærisveinum sínum í íslenska karlalandsliðinu í fótbolta eftir októberleikina tvo í undankeppni heimsmeistaramótsins.
Arnar og hans menn fengu ekkert út úr Úkraínuleiknum á föstudag þrátt fyrir góða frammistöðu að mörgu leyti en bættu fyrir það með því að hirða óvænt stig af stjörnum prýddu liði Frakka á Laugardalsvellinum í gærkvöld, 2:2.
Tólfan tók víkingaklappið með íslensku landsliðsmönnunum í leikslok. Rúmlega níu þúsund áhorfendur stóðu og klöppuðu þeim lof í lófa á Laugardalsvellinum í gærkvöld. Það var eins og við værum komin átta til tíu ár aftur í tímann.
Það er magnað hvað Arnari hefur tekist að búa til öfluga og samstillta liðsheild á stuttum tíma í sumar og haust. Um leið er hann með lið sem vill vera með boltann og sækja í sínum leikjum, og hefur burði og getu til þess. Það skilaði fimm mörkum gegn Úkraínu og Frakklandi í þessum tveimur októberleikjum. Allt sem vantaði upp á í varnarleiknum gegn Úkraínumönnum, sem skoruðu fimm mörk úr sex skotum á föstudaginn, var til staðar í gærkvöld.
Óþrjótandi baráttuvilji þar sem miðverðirnir Daníel Leó Grétarsson og Sverrir Ingi Ingason fóru fyrir í erfiðum slag gegn líkamlega sterkum og fljótum Frökkum og unnu hvert návígið á fætur öðru. Erum við að þarna eignast miðvarðapar á pari við Kára og Ragga?
Guðlaugur Victor Pálsson er hinn óvænti markaskorari landsliðsins í seinni tíð og gerði sitt þriðja mark á árinu þegar hann kom Íslandi yfir undir lok fyrri hálfleiks. Frakkar virtust vera búnir að snúa leiknum sér í hag um miðjan síðari hálfleik eftir þunga pressu og mörk frá Christopher Nkunku og Jean-Philippe Mateta, öflugum sóknarmönnum úr ensku úrvalsdeildinni.
En þar sýndi íslenska liðið enn og aftur karakterinn sem í því býr. Rétt eins og það kom tvisvar til baka gegn Úkraínu á föstudag jafnaði það leikinn strax, Kristian Nökkvi Hlynsson eftir góðan undirbúning Alberts Guðmundssonar, og þessa jafnteflisstöðu, 2:2, varði íslenska liðið með kjafti og klóm til leiksloka.
Leiðin á HM er vissulega erfið fyrst aðeins náðist eitt stig í þessum októberglugga. Ísland er með fjögur stig og Úkraína sjö í baráttunni um umspilssætið dýrmæta. Það þýðir að Ísland þarf að vinna Aserbaídsjan í Bakú 13. nóvember til að komast í sem besta stöðu fyrir úrslitaleik gegn Úkraínu í lokaumferðinni þremur dögum síðar. En það er ekkert ómögulegt við það. Í raun bara ágætis möguleiki.
Undankeppni HM karla 2026, Laugardalsvöllur 13. október 2025.
Lið Íslands: (4-4-2) Mark: Elías Rafn Ólafsson. Vörn: Guðlaugur Victor Pálsson, Sverrir Ingi Ingason, Daníel Leó Grétarsson, Logi Tómasson (Jón Dagur Þorsteinsson 62). Miðja: Mikael Egill Ellertsson, Hákon Arnar Haraldsson, Ísak Bergmann Jóhannesson (Stefán Teitur Þórðarson 85), Albert Guðmundsson (Mikael Anderson 85). Sókn: Sævar Atli Magnússon (Brynjólfur Willumsson 45), Daníel Tristan Guðjohnsen (Kristian Nökkvi Hlynsson 46).
Lið Frakklands: (4-3-3) Mark: Mike Maignan. Vörn: Jules Koundé, William Saliba, Dayot Upamecano, Lucas Digne. Miðja: Manu Koné, Eduardo Camavinga (Khéphren Thuram 75), Michael Olise. Sókn: Florian Thauvin (Maghnes Akliouche 64), Jean-Philippe Mateta (Hugo Ekitiké 89), Christopher Nkunku (Kingsley Coman 75).
Gul spjöld: Logi, Camavinga.
Dómari: Orel Grinfeeld, Ísrael.
Áhorfendur: 9.151.
ÍSLAND – FRAKKLAND 2:2
1:0 Guðlaugur Victor Pálsson 39.
1:1 Christopher Nkunku 63.
1:2 Jean-Philippe Mateta 68.
2:2 Kristian Nökkvi Hlynsson 70.
m m
Sverrir Ingi Ingason
Guðlaugur Victor Pálsson
Daníel Leó Grétarsson
m
Hákon Arnar Haraldsson
Ísak B. Jóhannesson
Elías Rafn Ólafsson
Mikael Egill Ellertsson
Albert Guðmundsson
Kristian Nökkvi Hlynsson
Jón Dagur Þorsteinsson lék sinn 50. A-landsleik fyrir Íslands hönd.
Guðlaugur Victor Pálsson hefur nú skorað þrjú af fimm mörkum sínum fyrir landsliðið á þessu ári og er markahæsti leikmaður liðsins árið 2025 ásamt Alberti Guðmundssyni.
Guðlaugur Victor skoraði fimmta markið í sínum 54. landsleik og Kristian Nökkvi Hlynsson skoraði sitt annað mark í sínum 8. landsleik. Bæði mörk Kristians hafa komið í þessari undankeppni HM.
Ísland hefur skorað 11 mörk í leikjunum fjórum í undankeppninni og það hefur liðið aldrei áður gert í fyrstu fjórum leikjum í undankeppni stórmóts.
Enginn verður í banni í næsta leik en Mikael Egill Ellertsson, Mikael Anderson og Logi Tómasson eru með eitt gult spjald hver.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
