„Þetta var mjög kærkominn sigur,“ sagði Hlynur Freyr Karlsson fyrirliði eftir sigur U21 árs landsliðs Íslands gegn jafnöldrum sínum frá Lúxemborg, 2:1, í undankeppni EM í fótbolta á Þróttarvelli í Laugardalnum í dag.
„Þetta var alvöru sigur hjá okkur. Við áttum að skora meira en sóttum þessi þrjú stig og það skiptir mestu máli,“ sagði Hlynur í samtali við mbl.is.
Sigurinn var ansi kærkominn fyrir íslenska liðið en þetta er fyrsti leikurinn sem vinnst í þessari undankeppni. Liðið er komið með fimm stig eftir fjóra leiki og er í baráttunni um efstu tvö sætin.
Íslenska liðið hefði hæglega getað skorað fleiri mörk.
„Við vorum óheppnir fyrir framan markið. Við vitum hvað við erum þéttir og góðir varnarlega þannig við vorum alltaf öruggir. Auðvitað er betra að vera með fleiri mörk en þetta var í toppmálum hjá okkur.“
Hlynur náði þó góðri tæklingu undir lokin í stöðunni 2:1 en án hennar hefði Lúxemborg mögulega getað jafnað.
„Það var góð tækling sem ég náði að tímasetja rétt. Ég er sáttur að hafa getað bjargað þar.“
Íslenska liðið er komið í betri mál eftir sigurinn en ætlar sér meira.
„Þetta er bara upp á við núna og við erum hungraðir. Við erum alls ekki hættir. Nú er næsta verkefni og við ætlum að vinna þar. Við erum mjög spenntir fyrir því verkefni.“
Hlynur hefur verið lengi með U21 árs landsliði Íslands og er nú orðinn fyrirliði. Ólafur Ingi Skúlason þjálfari treystir honum því vel.
„Það er alltaf svaklegt stolt og heiður að fá að vera fyrirliði þessa liðs. Ég er mjög ánægður með það. Ég á Ólafi mikið að þakka. Nú er bara að æfa vel og vera klár í næsta verkefni.“