Breiðablik er komið áfram í 16-liða úrslit Evrópubikars kvenna í fótbolta eftir jafntefli gegn serbneska liðinu Spartak Subotica í seinni leik liðanna í Subotica í Serbíu í dag.
Breiðablik vann öruggan sigur í fyrri leiknum, 4:0, og fer því samanlagt 5:1-áfram. Dregið verður í 16-liða úrslitin í Nyon í Sviss á föstudaginn og verða þeir leikir spilaðir í nóvember.
Blikaliðið var mun betra í fyrri hálfleik og skapaði sér fullt af færum. Til að mynda fékk Andrea Rut Bjarnadóttir dauðafæri snemma leiks en skaut boltanum yfir markið. Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk álíka gott færi í byrjun seinni hálfleiks og skaut í slána og niður.
Soyi Kim kom hins vegar heimakonum í Spartak yfir á 54. mínútu. Þá fékk hún boltann á miðjunni og lék á Heiðu Ragneyju Viðarsdóttur áður en hún hamraði boltanum í netið af 30 metra færi, 1:0. Katherine Devine markvörður var í boltanum en skotið reyndist of fast.
Spartak sótti aðeins í sig veðrið eftir það mark og reyndi að bæta við fleiri mörkum en þá stóð Blikavörnin vel.
Heiða Ragney jafnaði síðan metin á 79. mínútu. Þá tók Agla María Albertsdóttir hornspyrnu inn á teiginn og Suhee Kang markvörður Spartak náði ekki að kýla boltann burt. Hann datt fyrir fætur Heiðu sem skoraði, 1:1.
Breiðablik fær FH í heimsókn í síðasta leik sínum í Bestu deildinni á tímabilinu næstkomandi laugardag en þá mun liðið taka við Íslandsbikarnum.