Jóhann hættur með Þór/KA

Jóhann Kristinn Gunnarsson er hættur sem þjálfari Þórs/KA.
Jóhann Kristinn Gunnarsson er hættur sem þjálfari Þórs/KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jóhann Kristinn Gunnarsson tilkynnti stjórn Þórs/KA á fundi í dag að hann muni ekki endurnýja samning sinn og láti því af störfum sem þjálfari kvennaliðsins í knattspyrnu.

Jóhann Kristinn hefur verið þjálfari Þórs/KA undanfarin þrjú tímabil og hafði áður stýrt liðinu í fimm tímabil, frá haustinu 2011 til loka tímabilsins 2016.

Undir hans stjórn hafnaði liðið í sjöunda sæti, efsta sæti neðri hluta Bestu deildarinnar, á nýafstöðnu tímabili.

Þór/KA varð Íslandsmeistari á fyrsta tímabili Jóhanns Kristins við stjórnvölinn sumarið 2012, varð meistari meistaranna árið eftir og komst í bikarúrslit sama ár, 2013.

Hefur unnið frábært starf

„Jóhann Kristinn hefur unnið frábært starf fyrir Þór/KA á þeim átta árum sem hann þjálfaði liðið samanlagt og ekki hægt í stuttum pistli að fara yfir og útskýra þau áhrif og þær framfarir í starfi félagsins sem hann hefur átt stóran þátt í að móta og koma í framkvæmd, auk þess að hafa alltaf verið okkur haukur í horni og ávallt tilbúinn að gefa góð ráð og aðstoða einnig á þeim tíma sem hann starfaði ekki sem þjálfari hjá félaginu.

Árin átta sem Jóhann Kristinn hefur starfað fyrir Þór/KA eru dýrmæt fyrir öll þau sem að félaginu hafa komið á þessum tíma, bæði leikmenn, aðra þjálfara og starfsfólk, stjórnarfólk og sjálfboðaliða og verðum við í Þór/KA honum ævinlega þakklát fyrir framlag hans til þróunar og framgangs knattspyrnu kvenna á Akureyri.

Stjórn Þórs/KA þakkar Jóhanni fyrir óeigingjarnt, faglegt og frábært starf í þágu félagsins í gegnum árin,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert