Arftaki Arons Einars loksins fundinn?

Gísli Gottskálk Þórðarson og Aron Einar Gunnarsson.
Gísli Gottskálk Þórðarson og Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Karítas/Eggert

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta á ennþá góða möguleika á því að enda í öðru sæti D-riðils undankeppni HM 2026 eftir frammistöðuna í nýliðnum landsleikjaglugga þar sem liðið mætti Úkraínu og Frakklandi á Laugardalsvelli.

Fyrri leiknum gegn Úkraínu lauk með naumum sigri Úkraínu, 5:3, á meðan íslenska liðið krækti í stig gegn Frakklandi eftir jafntefli liðanna í Laugardalnum 2:2.

Ísland er með 4 stig í þriðja sæti riðilsins, þremur stigum minna en Úkraína sem er í öðru sætinu með 7 stig og sex stigum minna en Frakkland sem er í efsta sætinu með 10 stig. Lokaleikir Íslands í undankeppninni verða gegn Aserbaídsjan í Bakú, þann 13. nóvember og svo gegn Úkraínu í Wroclaw í Póllandi þann 16. nóvember en Úkraína leikur heimaleiki sína í Póllandi vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.

„Auðvitað hefði maður alltaf viljað fá allavega eitt stig úr leiknum gegn Úkraínu en á sama tíma var maður kannski ekki að gera ráð fyrir því að fá eitt stig á móti Frakklandi þannig að heildarmyndin af þessum landsleikjaglugga er kannski dáldið skökk,“ sagði landsliðsmaðurinn fyrrverandi Kári Árnason í samtali við Morgunblaðið þegar hann ræddi frammistöðu íslenska liðsins í landsleikjaglugganum.

Arftaki Arons Einars

Kári telur að íslenska liðinu vanti alvöru varnartengilið, hlutverk sem landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi Aron Einar Gunnarsson gegndi lengi vel í landsliðinu en hver gæti fyllt skarðið sem hann skilur eftir sig, á næstu árum?

„Ég hef verið ófeiminn við að segja það að ég er mjög hrifinn af Júlíusi Magnússyni. Hann er með leiðtogahæfileika og lætur sig varnarleikinn varða líka. Ég held hins vegar að sá leikmaður sem muni negla þessa stöðu í framtíðinni sé Gísli Gottskálk Þórðarson. Hann er sexa en kannski ekki þessi týpíska sexa, hann er meira svona Sergio Busquets-týpa. Það eru í raun engin takmörk fyrir því hversu langt hann getur náð. Hann er ofboðslega leikinn með boltann og mjög hávaxinn líka, rúmlega 190 sentímetrar. Hann er að spila með frábæru liði í mjög sterkri deild og hann á bara eftir að vaxa á næstu árum.

Það var mjög góð ákvörðun hjá Arnari að taka hann inn í hópinn og eftir því sem ég kemst næst hefur hann komið mjög vel inn í þetta og staðið sig vel á æfingum. Hann er ennþá kornungur og það vantaði kannski smá kjöt á beinin en það mun koma með tíð og tíma. Hann hefur allt til bruns að bera til þess að spila þessa sexu-stöðu fyrir Arnar að mínu mati. Hann er góður varnarmaður en hann er líka góður sóknarlega. Hann er leikmaður sem lætur boltann ganga mjög vel og ég er sannfærður um það að hann eigi eftir að verða frábær fyrir okkur í framtíðinni.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins fimmtudaginn 16. október eða með því að smella hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert