Einar Freyr Halldórsson hefur framlengt samning sinn við uppeldisfélag sitt Þór á Akureyri.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Einar, sem er einungis 17 ára gamall, skrifaði undir samning sem gildir út keppnistímabilið 2028.
Einar lék alls 16 leiki með Þórsurum í 1. deildinni í sumar og skoraði í þeim tvö mörk en hann var í stóru hlutverki hjá liðinu sem tryggði sér efsta sæti deildarinnar og um leið sæti í Bestu deildinni að ári.
Hann á að baki 20 leiki fyrir yngri landslið Íslands en hann fór á reynslu hjá Íslendingaliði Brann í Noregi á dögunum.
