Mikið áfall fyrir landsliðsfyrirliðann

Orri Steinn Óskarsson í leik með Real Sociedad.
Orri Steinn Óskarsson í leik með Real Sociedad. AFP/Ander Gillenea

Bakslag er komið í bata Orra Steins Óskarssonar, landsliðsfyrirliða í knattspyrnu, sem hefur glímt við meiðsli á vinstra læri undanfarnar sex vikur.

Real Sociedad tilkynnti á heimasíðu félagsins í dag að skoðanir læknateymisins hefðu leitt í ljós að meiðsli framan á lærinu hefðu tekið sig upp að nýju.

Um töluvert áfall er að ræða fyrir Orra Stein, Real Sociedad og íslenska landsliðið því nú er óvíst hvort hann geti tekið þátt í síðustu tveimur leikjum Íslands í undankeppni HM 2026 um miðjan nóvember.

Orri Steinn var búinn að skora eitt mark í þremur deildarleikjum fyrir Real Sociedad áður en hann meiddist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert