„Ekki hægt að segja að eitthvað skrítið hafi átt sér stað“

Landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson.
Landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta á ennþá góða möguleika á því að enda í öðru sæti D-riðils undankeppni HM 2026 eftir frammistöðuna í nýliðnum landsleikjaglugga þar sem liðið mætti Úkraínu og Frakklandi á Laugardalsvelli.

Fyrri leiknum gegn Úkraínu lauk með naumum sigri Úkraínu, 5:3, á meðan íslenska liðið krækti í stig gegn Frakklandi eftir jafntefli liðanna í Laugardalnum 2:2.

Ísland er með 4 stig í þriðja sæti riðilsins, þremur stigum minna en Úkraína sem er í öðru sætinu með 7 stig og sex stigum minna en Frakkland sem er í efsta sætinu með 10 stig. Lokaleikir Íslands í undankeppninni verða gegn Aserbaídsjan í Bakú, þann 13. nóvember og svo gegn Úkraínu í Wroclaw í Póllandi þann 16. nóvember en Úkraína leikur heimaleiki sína í Póllandi vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.

„Auðvitað hefði maður alltaf viljað fá allavega eitt stig úr leiknum gegn Úkraínu en á sama tíma var maður kannski ekki að gera ráð fyrir því að fá eitt stig á móti Frakklandi þannig að heildarmyndin af þessum landsleikjaglugga er kannski dáldið skökk,“ sagði landsliðsmaðurinn fyrrverandi Kári Árnason í samtali við Morgunblaðið þegar hann ræddi frammistöðu íslenska liðsins í landsleikjaglugganum.

Of margar skyndisóknir

Íslenska liðinu tókst að jafna metin gegn Úkraínu í tvígang en fjögur mörk Úkraínu komu á lokamínútum fyrri og seinni hálfleiks.

„Það er aldrei gott að fá á sig fimm mörk og það er ekki hægt að segja að eitthvað skrítið hafi átt sér stað í leiknum gegn Úkraínu. Það er búið að tala um að þeir hafi verið heppnir með skotin sín en af hverju fá þeir þessi skot? Var það vegna þess að þeir voru búnir að teygja of mikið á okkur eða var varnarlínan okkar of djúp? Við gerðum virkilega vel í að halda boltanum í þessum leik og sköpuðum okkur mörg góð færi.

Við vorum hins vegar að fá á okkur allt of margar skyndisóknir sem er oft fylgifiskur þess að vilja halda mikið í boltann. Þetta er eitthvað sem við verðum að laga, það er að segja þegar kemur að þessum skyndisóknum, á sama tíma er ekki hægt að vera bestur í öllu þannig að við þurfum að skerpa á ákveðnum hlutum.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins fimmtudaginn 16. október eða með því að smella hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert