Breiðablik sigraði FH, 3:2, í viðureign tveggja efstu liða Bestu deildar kvenna í fótbolta í lokaumferð deildarinnar á Kópavogsvellinum í dag.
Breiðablik hafði þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð og tók því við meistaraskildinum í leikslok.
FH gulltryggði sér annað sæti deildarinnar og sæti í undankeppni Meistaradeildarinnar, en liðið hefði þurft að tapa með átján marka mun til að missa af því.
Breiðablik átti upphafsspyrnu leiksins og byrjuðu Blikakonur á því að sparka boltanum út af til þess að Katrín Ásbjörnsdóttir gæti fengið heiðursskiptingu. Hafði hún ekkert spilað með liðinu frá því hún meiddist í úrslitaleik Íslandsmótsins síðasta haust. Inn á fyrir hana kom Berglind Björg Þorvaldsdóttir.
Maya Hansen kom FH-ingum yfir á 12. mínútu leiksins. Hafði markið legið í loftinu frá upphafi leiksins. Markið kom þegar Blikar misstu boltann á slæmum stað og Thelma Lóa Hermannsdóttir sendi boltann á Mayu sem skaut föstu skoti upp í samskeytin og staðan 1:0 fyrir FH.
Blikar voru ekki lengi að jafna því innan við tveimur mínútum síðar jafnaði Samantha Smith eftir sendingu frá Hrafnhildi Ásu Halldórsdóttur.
Eftir þetta litu nokkur færi dagsins ljós en ekkert þeirra endaði með marki. Fóru liðin því til búningsklefa í hálfleik í stöðunni 1:1.
Seinni hálfleikurinn var mjög rólegur framan af og gerðist lítið markvert. Liðin hófu skiptingar mjög snemma í seinni hálfleik sem setti leikskipulag liðanna úr skorðum og sást það. Liðin höfðu svo sem ekki að neinu að keppa þar sem niðurstaðan í deildinni var þá þegar orðin ljós.
Á 71. mínútu gaf Andrea Rut Bjarnadóttir stungusendingu á Birtu Georgsdóttir sem skoraði fram hjá Macy. Macy var í algjörri skógarferð og komin alltof langt út úr markinu. Staðan 2:1 fyrir Breiðablik.
Á 81. mínútu voru FH-ingar með boltann inni í teig Blika. Thelma Lóa Hermannsdóttir gaf þá boltann út á Andreu Rán Snæfeld sem skaut föstu skoti með jörðinni og í bláhornið. Jafnaði hún því leikinn fyrir FH með frábæru marki. Staðan 2:2.
Heiða Ragney Viðarsdóttir skoraði eftir hornspyrnu á 89. mínútu leiksins. Agla María gaf boltann fyrir, Barbára Sól skallaði boltann að marki og boltinn dettur fyrir Heiðu eftir að hafa haft viðkomu í Samönthu og skoraði Heiða með föstu skoti.