Skipt af velli eftir nokkrar sekúndur í kveðjuleik á ferlinum

Katrín Ásbjörnsdóttir var föðmuð á sjúkrabörum þar sem hún fagnaði …
Katrín Ásbjörnsdóttir var föðmuð á sjúkrabörum þar sem hún fagnaði Íslandsmeistaratitlinum 2024 með Breiðabliki í fyrra. mbl.is/Ólafur Árdal

Katrín Ásbjörnsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, var óvænt í byrjunarliði Breiðabliks gegn FH í lokaumferð Bestu deildarinnar en leikur liðanna hófst klukkan 14 á Kópavogsvellinum.

Katrín hefur ekkert spilað og ekki verið í leikmannahópi Breiðabliks síðan hún slasaðist illa í úrslitaleik liðsins gegn Val í lokaumferð deildarinnar fyrir ári síðan.

Hún var þó ekki lengi inn á vellinum því strax á fyrstu mínútu leiksins fékk Katrín heiðursskiptingu og Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom inn á fyrir hana.

Um leið var tilkynnt að þetta væri kveðjuleikur hennar á ferlinum.

Katrín Ásbjörnsdóttir fagnar marki fyrir Breiðablik á síðasta tímabili.
Katrín Ásbjörnsdóttir fagnar marki fyrir Breiðablik á síðasta tímabili. mbl.is/Arnþór Birkisson

Katrín er 33 ára gömul og þetta var hennar 215. leikur í efstu deild en hún hefur skorað 93 mörk í deildinni á ferlinum.

Katrín Ásbjörnsdóttir í leik með Stjörnunni.
Katrín Ásbjörnsdóttir í leik með Stjörnunni. mbl.is/Óttar Geirsson

Katrín lék með meistaraflokki KR frá 17 ára aldri og var þar í þrjú ár, frá 2009 til 2011. Hún lék síðan með Þór/KA 2012 til 2014, með Klepp í Noregi árið 2015, með Stjörnunni 2016 til 2018, með KR aftur 2020, með Stjörnunni 2021 og 2022 og með Breiðabliki frá 2023.

Hún varð Íslandsmeistari með Þór/KA árið 2012, með Stjörnunni 2016 og nú með Breiðabliki 2024 og 2025.

Katrín lék 19 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði eitt mark.

Katrín Ásbjörnsdóttir í leik með KR.
Katrín Ásbjörnsdóttir í leik með KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Katrín Ásbjörnsdóttir í leik með Þór/KA.
Katrín Ásbjörnsdóttir í leik með Þór/KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert