Stjarnan tryggði sér fjórða sætið í Fossvogi

Linda Líf Boama með boltann gegn Stjörnunni.
Linda Líf Boama með boltann gegn Stjörnunni. mbl.is/Ólafur Árdal

Víkingur úr Reykjavík og Stjarnan skildu jöfn, 1:1, í loka umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Fossvogi í dag.

Stjarnan hafnar því í fjórða sæti deildarinnar með 32 stig á meðan Víkingur þarf að sætta sig við 5. sætið með 29 stig.

Í fyrri hálfleik stjórnaði Stjarnan leiknum algjörlega. Víkingur náði ekki að skapa sér mörg færi en þegar það gerðist voru Stjörnukonur klárar í slaginn. 

Fyrsta mark leiksins kom síðan á 21. mínútu er Arna Dís Arnþórsdóttir bar boltann upp að teig Víkings. Enginn varnarmaður vildi mæta henni þannig hún hlóð í skot sem flaug upp í hornið fjær þar sem Sigurborg Katla Svenbjörnsdóttir í marki Víkings náði ekki til hans, 1:0.

Beint í kjölfarið slapp Ashley Clark í gegnum vörn Stjörnunnar og lék vel fram hjá Bridgette Skiba í marki Stjörnunnar. Clark reyndi síðan sendingu fyrir autt markið en Jakobína Hjörvarsdóttir komst í boltann og bjargaði marki.

Stjarnan reyndi enn og aftur skot fyrir utan teig og mörg og á 36. mínútu reyndi Arna aftur skot fyrir utan teig sem flaug í þverslána og út. 

Staðan var því 0:1 í hálfleik, Stjörnunni í vil.

Víkingur mætti hins vegar til leiks í seinni hálfleik og pressaði Stjörnuna virkilega vel. Víkingur óð þess vegna í færum og kom jöfnunarmarkinu á 60. mínútu.

Þá vann Dagný Pétursdóttir boltann framarlega á vellinum eftir slaka markspyrnu Stjörnunnar. Dagný var hins vegar felld inni í teig en boltinn datt fyrir Bergdísi Sveinsdóttur sem setti boltann í autt markið og jafnaði metin, 1:1.

Á 76. mínútu fékk Víkingur tækifæri til þess að komast yfir þegar Dagný slapp í gegnum vörn Stjörnunnar. Var hún komin ein á móti marki er hún reyndi skot sem fór hins vegar rétt framhjá.

Leikurinn fór mikið fram og til baka á lokamínútunum og bæði lið fengu nóg af færum til að stela sigrinum. Ekki gerðist það hins vegar og skildu liðin því jöfn í lokaumferð Bestu deildar kvenna.

Víkingur R. 1:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Víkingur R. fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert