Víkingur sneri taflinu við á Kópavogsvelli

Óskar Borgþórsson jafnar fyrir Víking, 1:1.
Óskar Borgþórsson jafnar fyrir Víking, 1:1. mbl.is/Ólafur Árdal

Íslandsmeistarar Víkings höfðu betur gegn Breiðabliki, 2:1, í 26. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Víkingur er með 54 stig og Breiðablik með 39 í fjórða sæti og í töluvert verri málum í baráttunni um sæti í Evrópukeppni.

Víkingar fengu fleiri færi í fyrri hálfleik og Atli Þór Jónasson fékk tvö úrvalsfæri til að skora fyrsta markið er hann slapp tvisvar einn gegn Antoni Ara Einarssyni í marki Breiðabliks en Anton sá við honum í bæði skiptin.

Hinum megin sköpuðu Breiðablik sér ekki mikið en áttu þó fínar sóknir inn á milli og fengu mikið af hornspyrnum. Það voru svo Blikar sem gerðu eina mark fyrri hálfleiks þegar Viktor Karl Einarsson afgreiddi boltann glæsilega í hornið eftir skemmtilega takta utarlega í teignum.

Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og heimamenn í Breiðabliki með 1:0-forskot í hálfleik.

Sú staða breyttist í 1:1 á 52. mínútu þegar Óskar Borgþórsson jafnaði eftir langan og góðan sprett eftir að Víkingar sneru vörn í sókn í kjölfar þess að Breiðablik fékk hornspyrnu.

Leikurinn róaðist eftir það en Tarik Ibrahimagic kom Víkingi yfir á 75. mínútu með glæsilegu skoti utan teigs upp í vinkilinn fjær eftir sendingu frá Gylfa Þór Sigurðssyni.

Liðunum gekk illa að skapa sér færi eftir það og Víkingur vann sterkan endurkomusigur.

Breiðablik 1:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka