Natasha Anasi-Erlingsson, landsliðskona í fótbolta, sleit krossband í hné í ágúst síðastliðnum og verður því frá keppni næstu mánuðina.
Endurhæfingin gengur vel, en Natasha samdi við Grindavík/Njarðvík fyrr í dag eftir tvö ár hjá Val.
„Hún gengur mjög vel. Ég er búin að vera á fullu í líkamsrækt, að hjóla og gera æfingar. Í þessari viku byrja ég að hoppa og svo vonandi fljótlega byrja ég að hlaupa.
Við erum að vonast til að ég geti byrjað að sparka í bolta í janúar. Endurhæfingin gengur því bara mjög vel og ég get ekki kvartað.“
Sérðu þá fyrir þér að þú verðir komin inn á fótboltavöllinn bara á undirbúningstímabilinu?
„Já, ég er að vonast til þess og sjúkraþjálfarinn sem ég er að vinna með hefur fulla trú á að það sé raunhæft.“
Svona fyrir utan þínar tengingar við Suðurnesin, hverjar voru helstu ástæðurnar fyrir því að þú ákvaðst að velja Grindavík/Njarðvík?
„Ég átti fund með Rabba og Gylfa og ég varð strax hrifin af því sem þeir vilja gera og hvernig þeir sjá framtíð liðsins fyrir sér. Ég fékk bara mjög góða tilfinningu frá fyrsta fundi og þetta togaði strax í mig.“
Verandi landsliðskona sérðu þá fyrir þér að vera áfram hluti af landsliðinu okkar?
„Já, Steini [Þorsteinn H. Halldórsson landsliðsþjálfari] velur auðvitað liðið. En ef ég er að spila af fullri getu þá held ég að ég muni alltaf koma til greina sem hluti af landsliðshópnum,“ sagði Nathasha í samtali við mbl.is.