Komu skemmtileg tilboð annars staðar frá

Natasha glaðbeitt við undirskriftina í dag.
Natasha glaðbeitt við undirskriftina í dag. mbl.is/Jón Kristinn

„Þetta er eitthvað sem hefur togað í mig síðan ég sá liðið spila í sumar. Stemmningin var frábær og mikil orka í þessu liði,“ sagði Natasha Anasi-Erlingsson, landsliðskona og nýjasti leikmaður Grindavíkur/Njarðvíkur í fótbolta, í samtali við mbl.is.

Hún skrifaði í dag undir samning við félagið út árið 2026 og mun því spila með nýliðunum í Bestu deildinni næsta sumar.

Spurð að því hvort ekkert annað lið hafi komið til greina áður en hún ákvað að ganga til liðs við Grindavík/Njarðvík:

„Jú, ég skoðaði ýmsa möguleika. Það komu skemmtileg tilboð annars staðar frá þar sem mér bauðst að bæði þjálfa og spila á sama tíma en mér fannst mest spennandi að spila með Grindavík/Njarðvík.

Bæði út af stemmningunni sem er hér og líka út af tengingunni við Suðurnesin en maðurinn minn er einhver mesti Njarðvíkingur sem hægt er að finna,“ sagði Natasha en eiginmaður hennar er Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í körfubolta.

Þú varst hjá Val í tvö ár. Kom ekki til greina að vera þar áfram?

„Ég var í samtali við Val og samtölin voru góð. En á endanum bara náðum við ekki saman og niðurstaðan var sú að ég ákvað að fara í annað lið. Mér fannst einfaldlega mjög spennandi að koma hingað og taka þátt í þessari vegferð sem Grindavík/Njarðvík er á. Hér eru mjög spennandi hlutir að gerast.“

Ef við gerum upp þitt síðasta tímabil hjá Val, hvernig myndir þú segja að það hafi verið?

„Það er ekki hægt að útskýra það öðruvísi en að segja að það hafi verið vonbrigði. Bæði hjá liðinu og hvar við enduðum og líka hjá mér persónulega þar sem ég meiddist þarna strax eftir landsliðspásuna. Í Val eru frábærar stelpur og flott þjálfarateymi. En það vantaði eitthvað upp á hjá okkur í sumar, því miður.“

Grindavík/Njarðvík mun spila í bestu deildinni á næsta tímabili. Hvaða væntingar hefur þú til liðsins og á hvaða stað í deildinni sérðu liði vera næsta sumar?

„Þjálfarateymið og Rabbi [Rafn Markús Vilbergsson] eru að gera mjög flotta og spennandi hluti hér. Okkar von og væntingar eru auðvitað þær að vera ávallt í baráttu við bestu liðin í deildinni. En verandi nýliðar þá er fyrsta markmiðið auðvitað að halda okkur í deildinni og byggja ofan á það. Ég persónulega hef mikinn metnað fyrir því að byggja upp fótboltann hérna á Suðurnesjum og byrjunin er að vera með lið héðan í efstu deild.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert