Landsliðskonan til nýliðanna

Natasha Anasi við undirskriftina í dag.
Natasha Anasi við undirskriftina í dag. mbl.is/Jón Kristinn

Natasha Anasi-Erlingsson, landsliðskona í fótbolta, er orðin leikmaður Grindavíkur/Njarðvíkur. Hún kemur til félagsins frá Val þar sem hún lék í tvö tímabil eftir veru hjá Brann í Noregi.

Grindavík/Njarðvík hafnaði í 2. sæti 1. deildarinnar á nýliðnu tímabili og verður því nýliði í Bestu deildinni á næsta ári.

Natasha hefur einnig leikið með ÍBV, Keflavík og Breiðabliki hér á landi en hún kom til Íslands árið 2014 og hefur leikið 117 leiki í efstu deild.

Hún fékk íslenskan ríkisborgararétt í desember árið 2019 og hefur leikið átta landsleiki fyrir Ísland.

Natasha sleit krossband í byrjun ágúst og er í endurhæfingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert