Geta lagað sig að hvaða aðstæðum sem er

Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson á von á erfiðum lokaleikjum gegn Aserbaídsjan og Úkraínu í D-riðli undankeppni HM 2026 um miðjan nóvember.

Landsliðsþjálfarinn tilkynnti 24-manna leikmannahóp sinn fyrir verkefnið í hádeginu í dag en Ísland mætir Aserbaídsjan í Bakú þann 13. nóvember og Úkraínu í Wroclaw, þann 16. nóvember.

Íslenska liðið er í þriðja sæti riðilsins með 4 stig, Frakkland er á toppnum með 10 stig og Úkraína er í öðru sætinu með 7 stig. Aserbaídsjan rekur lestina með eitt stig.

Mikilvægt stig gegn Frökkum

„Stigið sem við kræktum í gegn Frakklandi var gríðarlega mikilvægt,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

„Það setti okkur í betri stöðu og það gerði það líka að verkum að Frakkar verða að vinna Úkraínu til þess að tryggja sér sæti á HM. Þeir vilja ekki fara til Bakú og þurfa að gera það þar.  Þetta gæti því spilast þannig að okkur gæti dugað jafntefli gegn Úkraínu, ef við vinnum Aserbaídsjan.

Þetta verða allt öðruvísi leikir en heimaleikirnir gegn þeim. Við verðum minna með boltann í báðum leikjum. Hingað til höfum við tekist vel á við allar aðstæður sem upp hafa komið í leikjum okkar. Við erum orðnir mjög góðir í mörgum þáttum leiksins og við getum aðlagað okkur að hvaða aðstæðum sem er í dag,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert