„Þetta var enginn draumadráttur“

Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson. AFP/Francis Coffrini

„Þetta var enginn draumadráttur, að lenda í riðli með heimsmeisturunum og svo Evrópumeisturunum líka,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, í samtali við Morgunblaðið þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við drættinum í gær.

„Þetta snýst fyrst og fremst um það að enda í topp þremur í riðlinum og komast þannig áfram í umspilið og það er númer eitt, tvö og þrjú. Spánn og England eru þekktar stærðir og ég held að það sé alveg augljóst að leikirnir gegn Úkraínu verða tveir lykilleikir fyrir okkur í þessari undankeppni,“ sagði Þorsteinn.

Vonar að fólk mæti

Spánn og England eru líklega tvö bestu landslið heims í dag en á íslenska liðið einhverja möguleika gegn þessum ógnarsterku andstæðingum?

„Við förum inn í alla leiki til þess að vinna, gera okkar allra besta og gefa allt í verkefnið en við gerum okkur líka grein fyrir því að þetta eru tveir mjög sterkir andstæðingar. Fótboltinn er samt alltaf bara fótbolti og það er allt hægt í þessu. Við munum leggja þessa leiki upp til þess að vinna þá og þannig munum við mæta til leiks.

Ég geri mér grein fyrir því að það verður áskorun en það er líka skemmtileg áskorun að mæta sterkustu landsliðum heims sem hafa á að skipa bestu leikmönnum heims. Það verður líka gaman að fá þessar stórþjóðir til Íslands. Vonandi mætir fólk á völlinn og styður okkur til dáða enda ekki á hverjum degi sem bæði heims- og Evrópumeistararnir mæta á Laugardalsvöll í sömu undankeppninni.“

Úkraína í mikilli sókn

Eins og Þorsteinn kom sjálfur inn á liggja möguleikar íslenska liðsins í riðlinum í leikjunum tveimur gegn Úkraínu.

„Ég hef ekki horft mikið á þetta úkraínska lið en þær, eins og flestallar þjóðirnar í Austur-Evrópu, hafa verið í mikilli sókn á undanförnum árum. Flestar af þessum Austur-Evrópuþjóðum eiga mjög góða og frambærilega leikmenn í dag sem eru flestir að spila með mjög sterkum félagsliðum, margar með mörgum af sterkustu liðum álfunnar.

Fram undan er að setja upp skipulag fyrir þessa leiki og hvernig við ætlum okkur að vinna þetta. Ég mun svo leggjast yfir mótherja okkar og greina þá og næstu mánuðir fara í það. Við verðum svo bara tilbúin og klár í slaginn þegar undankeppnin hefst í mars þar sem við munum mæta 100 prósent tilbúin og klár í slaginn.“

Eiga fína möguleika

Hvernig metur Þorsteinn möguleika liðsins á að komast alla leið í lokakeppnina?

„Ég tel möguleika okkar bara fína. Það er auðvitað þannig að öll liðin í A-deildinni fara í umspil en við viljum enda í efstu þremur sætunum og sleppa þannig við sterkustu þjóðirnar í B-deildinni þegar komið er inn í umspilið og það er í raun algjört lykilatriði fyrir okkur. Við áttum góða glugga núna gegn Norður-Írlandi og það er gott að taka frammistöðuna með sér inn í næsta verkefni.

Við gerðum marga hluti mjög vel gegn Norður-Írunum en við þurfum að gera enn þá betur í komandi undankeppni ef við ætlum okkur að ná markmiðum okkar. Við erum lið sem er í stöðugri þróun og að spila á móti sterkustu þjóðum heims er bara liður í því núna. Við stefnum alltaf hærra og tilhlökkunin er mikil að hefja leik í mars,“ bætti Þorsteinn Halldórsson við í samtali við Morgunblaðið.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert