Rússar kærðir vegna hegðunar áhorfenda

Þessir stuðningsmenn rússneska liðsins skemmtu sér vel og hafa eflaust ...
Þessir stuðningsmenn rússneska liðsins skemmtu sér vel og hafa eflaust ekki komið nálægt neinu misjöfnu í Wroclaw. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur kært rússneska knattspyrnusambandið vegna ósæmilegrar hegðunar stuðningsmanna rússneska liðsins þegar það mætti Tékkum í Wroclaw í fyrstu umferð Evrópukeppninnar í gær.

Rússarnir eru kærðir fyrir ólæti á leiknum, fyrir að kveikja í og fleygja flugeldum á vellinum og fyrir að birta ósæmilega borða á vellinum. Öryggismyndavélar á vellinum sýndu m.a. rússneska áhorfendur í slagsmálum við öryggisverði og þá er UEFA að kanna nánar tilkynningar um meiðandi ummæli í garð leikmanna Tékklands.

Útsendarar sem fylgjast með framferði áhorfenda tilkynntu að rússnesku áhorfendurnir hefðu kallað ókvæðisorðum að svörtum leikmanni Tékka, Theodor Gebre Selassie, í leiknum. Þá munu fánar rússneskra öfgahægrimanna hafa sést í stúkunni.

Fjórir öryggisverðir voru fluttir á sjúkrahús eftir átök við Rússana en fengu allir að fara heim að skoðun lokinni. Engir hafa verið handteknir en lögreglan segist hafa undir höndum myndir úr öryggismyndavélum af 12 einstaklingum sem hafi ráðist á öryggisverðina.

mbl.is