Enn grunnt á því góða milli Þýskalands og Hollands

Hollendingar mega ekki við öðru tapi eftir að hafa tapað ...
Hollendingar mega ekki við öðru tapi eftir að hafa tapað fyrir Danmörku 1:0. AFP

Það verður meira undir en þrjú mikilvæg stig þegar Holland og Þýskaland mætast í Kharkiv á morgun kl. 18:45. Rígur þjóðanna nær aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar.

Blaðamaðurinn Kit Holden fjallar um þetta í pistli á vefsíðu Independent. Þar segir hann að rígurinn á milli Englands og Þýskalands komist ekki í hálfkvisti við þann sem ríkir milli Hollands og Þýskalands. Ætti heldur engan að undra. Þessar þjóðir hafa lengi elt grátt silfur en nokkrar viðureignir standa upp úr.

Þar má nefna úrslitaleikinn á HM 1974. Fyrir leikinn birtist frétt í þýska blaðinu Bild um að Johan Cruyff, helsta stjarna Hollendinga, hefði eytt nótt með „nakinni konu“. Cruyff eyddi kvöldinu fyrir úrslitaleikinn í að útskýra fyrir eiginkonu sinni hvað hefði gerst, og Þýskaland vann svo 2:1-sigur.

Holland náði fram hefndum á EM 1988 þar sem Marco van Basten tryggði 2:1-sigur í undanúrslitum. Ronald Koeman var sagður hafa notað þýska landsliðstreyju Olafs Thons sem klósettpappír í fagnaðarlátum eftir leik. Holland vann svo mótið.

Á HM 1990 náði rígurinn líklega hámarki þegar Þjóðverjar slógu Hollendinga út í 16 liða úrslitum. Þar hrækti Frank Rijkaard aftan á höfuð Rudis Völlers, ekki einu sinni heldur tvisvar, en Völler var sá sem fékk að lokum rauða spjaldið vegna viðbragða sinna.

Þótt leikmenn liðanna á Evrópumótinu nú hafi flestir verið smákrakkar þegar tveir síðastnefndu leikirnir fóru fram, ef þeir voru á annað borð fæddir, er ljóst að sigur í leiknum er mikils virði í sögulega samhenginu. Þá er leikurinn nánast upp á líf og dauða fyrir hollenska liðið á mótinu í ár eftir tap gegn Danmörku í fyrsta leik.

mbl.is