Þaggaði niður í þeim öllum

Cristiano Ronaldo fagnar marki gegn Ungverjalandi á dögunum.
Cristiano Ronaldo fagnar marki gegn Ungverjalandi á dögunum. AFP

Cristiano Ronaldo og félagar í Portúgal mæta Króatíu í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu. Ronaldo sjálfur er þess fullviss að Portúgal hafi það sem þarf til að fara alla leið.

„Ég held það. Portúgal hefur góða leikmenn í bestu deildum í heimi. Hvers vegna ekki?“ er haft eftir Ronaldo í London Evening Standard um það hvort Portúgal gæti farið alla leið og unnið EM.

„Ég hef alltaf sagt að það er minn draumur að vinna bikar fyrir þjóð mína. Það er möguleiki á að það gerist. Það er flókið og erfitt en við munum gera allt,“ sagði Ronaldo.

Eftir að hafa valdið miklu fjaðrafoki í fjölmiðlum fyrir leikinn gegn Ungverjalandi, þar sem Ronaldo virtist hafa allt og alla á hornum sér, skoraði hann tvívegis í leiknum og tryggði Portúgal naumlega áframhaldandi veru á EM. Það kom liðsfélaga hans, Nani, ekki mikið á óvart.

„Það vita allir hvað Cristiano getur gert, hvenær sem er, á hvaða mínútu sem er í leikjum,“ sagði Nani og hélt áfram:

„Hann er frábær leikmaður sem á einnig erfiða tíma. Hann sýndi það gegn Ungverjalandi þegar allir voru að tala um hann. Hann hefur þaggað niður í þeim öllum núna,“ sagði Nani.

Nani og Ronaldo eru góðir félagar.
Nani og Ronaldo eru góðir félagar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina