Eins og risastór mölflugugildra

Mölfluga settist á augabrún Cristiano Ronaldo þar sem hann sat …
Mölfluga settist á augabrún Cristiano Ronaldo þar sem hann sat óvígur á grasinu á Stade de France í gærkvöldi. AFP

Mölflugnager á Stade de France í París yfirskyggði heldur bragðdaufan úrslitaleik heimamanna og Portúgala í gærkvöld, sérstaklega eftir að ein þeirra tyllti sér á Cristiano Ronaldo. Sérfræðingar segja að flóðljós vallarins hafi líklega laðað mölflugurnar sem voru á leiðinni norður á bóginn þangað. 

Flugurnar eru af tegundinni gammayglur en það er fartegund sem flytur sig norður í gegnum Evrópu á sumrin í leit að svæðum til að fjölga sér áður en hún snýr aftur til suðurs á haustin, að því er The Guardian hefur eftir Richard Fox frá breskum fiðrildaverndarsamtökum.

Á hlýju sumarkvöldi eins og því sem var í París í gærkvöldi segir Fox að upplýstur knattspyrnuvöllurinn virki eins og risastór mölflugugildra. Hann hafi laðað að sér þúsundir mölflugna sem voru á ferðinni í grenndinni.

Fyrst varð vart við mölflugurnar þegar dómari leiksins og aðstoðarmenn hann fóru fyrst út á grasið. Mölflugurnar voru því líklega komnar kvöldið áður en flóðljósin voru skilin eftir í gangi um nóttina fyrir leikinn.

„Þegar öll þessi stóru spendýr koma og þramma um grasið fljúga mölflugurnar upp og í burtu mjög skynsamlega,“ segir Fox. 

Dýraríkið hafði ekki lokið sýningunni þar því blaðamenn sem voru á leiknum segja að fljótlega hafi dúfur drifið að. Upphófst þá eltingaleikur og veisla hjá fuglunum sem gæddu sér á mölflugunum.

Frétt The Guardian

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin