Vonandi sjá þær þetta ekki

„Þetta er allt voða spennandi en þetta er líka fljótt að líða og maður þarf bara að njóta þess að vera hérna,“ segir Ingibjörg Sigurðardóttir, einn nýliðanna í íslenska landsliðinu sem leikur á EM í knattspyrnu í Hollandi.

Ingibjörg hafði ekki spilað A-landsleik þegar sumarið gekk í garð en stóð sig frábærlega í sínum fyrstu og einu leikjum, gegn Írlandi og Brasilíu í júní, og tryggði sér EM-farseðilinn. Þessi 19 ára miðvörður Breiðabliks, sem uppalin er í Grindavík, er því á meðal gesta á hótelinu sem íslenski hópurinn dvelur á í Ermelo:

„Það kom mér eiginlega svolítið á óvart. Það gekk einhvern veginn allt upp og mér líður rosalega vel inni á vellinum með stelpunum. Þær eru svo ótrúlega góðar í að tala við mig og koma mér inn í þetta. Ég fíla þetta ótrúlega vel,“ segir Ingibjörg. Hún hefur meira að segja sloppið alfarið við nýliðavígslu hingað til, og ef til vill er sá siður á undanhaldi:

„Nei, ég vil nú helst ekki vera að nefna þetta. Vonandi sjá þær þetta ekki og gleyma þessu bara,“ segir Ingibjörg lauflétt.

Nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is