Stelpurnar eru engar drottningar

Edda Garðarsdóttir í leik Íslands og Eistlands árið 2009.
Edda Garðarsdóttir í leik Íslands og Eistlands árið 2009. Kristinn Ingvarsson

Edda Garðarsdóttir, fyrrverandi landsliðskona Íslands í knattspyrnu, ræddi við mbl.is um gengi Íslands í úrslitakeppni Evrópumótsins, en fyrsti leikur er annað kvöld gegn Frakklandi. Edda lék 103 leiki með landsliðinu og spilaði með því í lokakeppni EM í Finnlandi árið 2009 en hún er nú þjálfari kvennaliðs KR í knattspyrnu.

Þónokkuð hefur verið um meiðsli í íslenska liðinu á síðustu misserum. Systurnar Elísa og Margrét Lára Viðarsdætur slitu báðar krossbönd, en Dóra María Lárusdóttir glímir við sömu meiðsli. Katrín Ómarsdóttir ökklabrotnaði á æfingu hjá KR, en hún leikur með félaginu undir stjórn Eddu.

„Já það hefur náttúrulega alltaf áhrif þegar hópurinn breytist mikið. Ég held að það gæti haft mikið að segja að missa Dóru Maríu og Margréti Láru út og jafnvel Katrínu Ómars. Við þurfum að sjá hvernig hópurinn bregst við, þær gætu látið þetta hafa áhrif á sig en þær sem hafa verið þarna áður reyna að hjálpa þeim sem eru nýjar. Við sjáum hvað gerist.“

Stuðningurinn eflandi

Liðið hefur fengið mikinn stuðning frá Íslendingum í kringum undirbúning fyrir EM, auk mikillar fjölmiðlaumfjöllunnar.

„Við vorum einmitt að ræða þetta í gær. Ég held að þetta hafi mjög eflandi áhrif á þær og þær fái auka kraft, þær finna stuðning úr öllum áttum og fá þvílíkt fína umfjöllun. Þær eru orðnar þekktar og eflaust enn ákveðnari í að standa sig. Þetta eru engar drottningar, þær láta þetta ekki stíga sér til höfuðs heldur þvert á móti.“

Hvernig er tilfinning Eddu fyrir landsliðshópnum?

„Hún er bara fín. Undirbúningstímabilið hefur ekki gengið sérstaklega vel en það sem mér finnst vera áberandi er hjá þeim í undirbúningi fyrir leiki og viðtölum eftir leiki, er að þær eru allar ákveðnar og sjá vel hvaða hluti þarf að laga og hvað er gott. Ég held að það sé ákveðin lykilatriði í liði sem vill geta eitthvað er að lesa stöðuna vel.“

Ísland mætir Frökkum í fyrsta leik, næst Sviss svo Austurríki. Leikirnir eru hluti af riðlakeppninni, en tvö efstu liðin leika í átta liða úrslitum mótsins.

Þurfa að vera jarðbundnar

„Á móti Sviss og Austurríki held ég að við eigum mjög góðan möguleika. Miðað við þessa leikmenn og reynslu sem við erum með. Ég myndi leggja aðeins meiri áherslu á varnarleikinn sérstaklega þar sem við erum með konu sem er markahæst og er ennþá í fæðingarorlofi. Það eru samt nokkrir leikmenn sem geta gert ótrúlegustu hluti.“

„Frakkar eru náttúrulega önnur sterkasta þjóð í heimi og þær þurfa að ná rosalega góðum leik og Frakkarnir að vera milligóðar til þess að við getum unnið þær. Ef ég á að vera bjartsýn þá segi ég 0:0. En ég veit ekki, kannski er fólk ósammála mér. Þær þurfa að ná að halda sér á jörðinni og fara eftir skipulagi þá held ég að það séu mjög góð úrslit. Ég held að það sé fínt að fá sterkasta liðið í fyrsta leik, þá er það bara búið. Ef að það gengur vel þá er það mjög gott spark í rassinn fyrir leikina í riðlinum. Ég vona það besta, 0:0,“ sagði Edda Garðarsdóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is